138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir framsögu hans um frumvarpið. Framsóknarflokkurinn hefur lengi barist fyrir nýsköpun hér á landi og mig langar til að leiðrétta eitt. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur t.d. lagt fram á tveimur eða þremur þingum frumvarp sem er nánast samhljóða þessu frumvarpi, en við skulum orða þetta sem svo að það er sama hvaðan gott kemur og ríkisstjórnin getur ekki merkt sér þetta sem sitt mál að þessu leyti. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf staðið, eins og ég sagði áðan, með slíkum fyrirtækjum og veit hvað það er brýnt að nýsköpun festi hér rætur.

Mig langar að spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram því að mikið er talað um skattafslátt í þessu frumvarpi, bæði að einstaklingar og lögaðilar njóti skattafsláttar fjárfesti þeir í nýsköpunarfyrirtækjum. Ég veit að uppi voru hugmyndir í nýsköpunarfyrirtækjum sem ég heimsótti fyrr í vetur að sett yrði í lögin það ákvæði að hægt væri að greiða skattfrjáls laun í formi hlutabréfa til þeirra einstaklinga sem vinna hjá slíkum fyrirtækjum, því að oft og tíðum eru nýsköpunarfyrirtæki á mjög sérhæfðu sviði og starfsfólk því frekar dýrt á samkeppnismarkaði. Ég spyr því hvort það hafi ekki verið skoðað í nefndinni að reyna að koma þessu inn í frumvarpið til þess að bestu fáanlegu starfsmenn á hverju sviði séu þá að vinna í þeim nýsköpunarfyrirtækjum sem nú þegar er búið að stofnsetja eða eru í burðarliðnum.