138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að fyrri punkti hv. þingmanns. Það mætti eiginlega snúa spurningunni við og segja: Vegna þess að við viljum vandaða lagasetningu var ákveðið að stíga ekki skrefið til fulls hvað varðar skattafslátt til starfsmanna. Látum það vera.

Eins og ég las upp í ræðu minni áðan kemur til útgreiðslu á þessum skattfrádrætti þó svo að álagður tekjuskattur nái honum ekki, þ.e. eins og ég vitnaði í umsögn frá ríkisskattstjóra:

„Ekki er gert ráð fyrir að tekið sé tillit til rekstrartaps sem fallið hefur til áður en fyrirtæki hefur hlotið staðfestingu Rannís samkvæmt lögunum.“ (Gripið fram í.)

Svo segir:

„Eins og skýrt kemur fram í lögunum er skattfrádráttur greiddur út sem skattfrjáls styrkur ef hann gengur ekki upp í álagðan tekjuskatt eða skuldajöfnun.“

Hér er því um að ræða útgreiðslu af hálfu ríkisins (Gripið fram í.) komi ekki til þess að fyrirtækin hafi skilað tekjuafgangi.