138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um samstarfsverkefni milli hóps fyrirtækja og löggjafans. Ég ætla að vona að hann hafi mismælt sig, hann hafi ekki hugsað þetta alveg til enda. Það gerir enginn samning við Alþingi um eitt eða neitt, Alþingi semur lög, ramma fyrir þjóðfélagið.

Þá langar mig til að benda á að hér er verið að biðla til áhættufjár, það er verið að biðla til manna um að setja áhættufé inn í fyrirtæki í nýsköpun og skapa þannig störf. Áhættufé á Íslandi er gjörsamlega rúið trausti eftir hrunið, þ.e. hjá þeim sem töpuðu mestu í hruninu, flestir hluthafar töpuðu öllu sínu, og það er ekkert traust lengur. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert, ekki neitt, til þess að byggja upp traust aftur til að koma í veg fyrir það svindl sem hefur komið í ljós á öllu síðasta ári og ríkisstjórnin gerir ekki neitt.

Hins vegar er hún að ráðast á áhættufé í stórauknum mæli í öllum sköttunum sem hún leggur á. Það er auðlindaskattur, það er skattur á arð, það er skattur á söluhagnað, það er skattur á leigu, það er skattur á hagnað fyrirtækja, allt hefur þetta hækkað. Verið er að ráðast markvisst á áhættufé sem hefur orðið fyrir miklu áfalli en svo eru menn að biðla til þess hins vegar. Nú er það þannig að áhættufé er forsenda þess að störf skapist í landinu og samt leyfir ríkisstjórnin sér að ráðast á það með margvíslegum hætti í skattalögunum sem eru til umræðu, svo maður tali nú ekki um tryggingagjaldið sem er líka skattlagning á atvinnu.

En jafnframt eru menn í þessu frumvarpi að biðla til áhættufjár. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig fer þetta saman að hans áliti?