138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi samstarfsverkefni Alþingis, ég hef aldrei látið mér detta í hug að menn gætu farið að semja við Alþingi, það er alveg fráleitt. Alþingi semur lög fyrir allt landið og alla þjóðina en ekki fyrir einstakar stéttir.

Varðandi áhættuféð, allt hlutafé er áhættufé. Hér er verið að gera sérstakar ívilnanir til þess að lokka áhættufé inn í ákveðna starfsemi, áhættufé, það er verið að lokka og biðla til áhættufjárins að koma inn í þetta. Ég geti ekki séð að nokkur skilji það öðruvísi en svo að verið sé að reyna að fá fólk til að fjárfesta, setja áhættufé inn í félög sem eru í rannsóknum og þróun, menn eru að gera það.

Á sama tíma, og því svaraði hv. þingmaður ekki, er ríkisstjórnin að ráðast mjög markvisst á áhættufé á mismunandi hátt, bæði með hagnað, arð og söluhagnað o.s.frv. Ríkisstjórnin er að hækka skatta og í sumum tilfellum umtalsvert fyrir utan það að hún leggur á tryggingagjald. Hv. þingmaður svaraði þessu ekki. Þetta er mótsögn, frú forseti, og hv. þingmaður á að svara mér: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin er bæði að lemja á áhættufénu um leið og hún reynir að lokka það til samstarfs?