138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi umræða er farin að tengjast — afsakið, klukkan er ekki rétt.

(Forseti (ÞBack): Nei, hún hleypur nú aðeins fram og til baka. Nú er hún rétt.)

Ég þakka fyrir, frú forseti.

Umræðan er náttúrlega að einhverju leyti farin að snúast um skattapólitík og nálgun okkar í þeim skattkerfisbreytingum sem eru núna í meðförum þingsins og verða eflaust ræddar á næstu tveim, þrem dögum og ég hlakka til þeirrar umræðu. Mín skoðun er sú að við skulum láta breiðustu bökin í samfélaginu taka á sig mestar byrðarnar og það lýsir sér í þeirri skattapólitík sem við erum að ræða í okkar tekjuskattsnálgun. (Gripið fram í.)

Hér erum við að horfa til þess að — ja, við erum kannski að horfa til þess að vera góð við þá sem eru með áhættufé með því að bjóða þeim skattfrádrátt ef þeir fjárfesta í ákveðnum verkefnum. Við það stend ég fullkomlega vegna þess að það er líka hluti af skattapólitík sem ég vil standa fyrir.