138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tvö mál, annars vegar breytingu á tekjuskattslögum og hins vegar löggjöf um nýsköpunarfyrirtæki. Mér dettur í hug í tengslum við umræðuna áðan þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talaði um hringlandahátt í skattkerfinu, ummæli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams um þær breytingar sem hann boðar og sérstaklega þó ummæli hæstv. ráðherra Árna Páls Árnasonar um að breyta eigi skattkerfinu á næsta ári, það er ekki nóg að við séum að breyta því núna, þá dettur mér í hug vísukorn í tilefni jólanna. Meðferð stjórnarflokkanna á skattkerfinu virðist einkennast af einkunnarorðunum „fyrst á réttunni, svo á röngunni“. Það á sem sagt að fara að hringla enn meira með þetta. En hvað um það.

Það mál sem hér er til umræðu er hið besta mál. Frumvörpin ganga út á bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknir og þróunarstarf og stuðla þannig að aukinni atvinnuþróun á því sviði. Minni hlutinn fagnar því að ríkisstjórnin hafi með málunum ekki einungis tekið undir málflutning Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í nýsköpunarmálum heldur ákveðið að leggja fram frumvörp í samræmi við efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins frá í vor og aftur í haust og ítrekaða þingsályktunartillögu þingmanna Framsóknarflokksins frá 135. og 136. löggjafarþingi.

Tillaga framsóknarmanna kom til þar sem skattaívilnanir til rannsókna og þróunar hafa um nokkurt skeið tíðkast í mörgum ríkjum OECD sem óbein leið til að hvetja fyrirtæki til að fjárfesta í rannsóknum og þróun, vegna þess að það er almenn trú að hagvöxtur felist í rannsóknum og þróun, þróun á nýrri tækni og nýjum tækifærum o.s.frv. Markmiðið er m.a. að efla nýsköpun í atvinnulífinu þar sem það getur leitt til efnahagslegra framfara og bættrar samkeppnisstöðu viðkomandi þjóða og þar af leiðandi aukinnar velferðar og kaupmáttar þegnanna. Þess má geta að í dag veita 21 ríki af 30 innan OECD einhvers konar skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar en það gerðu um 12 ríki árið 1996. Meðal þeirra sem hafa farið þessa leið eru Norðmenn. Þessi löggjöf byggir að nokkru á henni. Íslendingar verða þá 22. ríkið, við erum frekar seint í röðinni en þó ber að fagna þessu frumkvæði ríkisstjórnarinnar.

Sköpun nýrra starfa og aukning á verðmætasköpun í þjóðfélaginu er lykilatriði málsins. Við þurfum að stuðla að aukinni fjárfestingu í samfélaginu þannig að hvorki þurfi að hækka skattana eins mikið og ella né skera eins mikið niður í opinberri þjónustu. Því miður hefur borið á þeim takmarkaða skilningi að einungis komi til greina annaðhvort að skera niður í rekstri hins opinbera eða að hækka skatta. Þriðju leiðinni, sem felst í að breikka skattstofna með aukinni atvinnu, aukinni verðmætasköpun og fjárfestingu í samfélaginu, hefur að stórum hluta verið hafnað eins og við sjáum í skattafrumvörpum hæstv. ríkisstjórnar. Það er því fagnaðarefni að ríkisstjórnin ætli nú að beita sér að einhverju leyti fyrir þessari þriðju leið, en það er í raun og veru lagt til með þessum tveim frumvörpum.

Minni hlutinn fagnar því einnig að frumvörpin séu í anda tillagna þingmanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og skuli nú loksins vera komin fram. Fulltrúar þessara flokka í efnahags- og skattanefnd hafa unnið af miklum heilindum að afgreiðslu málsins, líkt og reyndar öllum öðrum málum, því að hér er um stórt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska þjóð og íslenskt atvinnulíf. Með afgreiðslu málanna eru flutt uppörvandi skilaboð inn í samfélagið sem ekki veitir af á tímum sem þessum.

Við umfjöllun málsins í nefndinni lagði minni hlutinn áherslu á að frumvarpið í þeirri mynd sem það var lagt fyrir þingið gagnist ekki sprotafyrirtækjum, heldur beinist fremur að stórum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru orðin nokkuð föst í sessi. Þá sé lögð allt of mikil áhersla á háskólarannsóknir og nýsköpun á því takmarkaða sviði, þ.e. að það beinist fremur að hagnýtingu grunnrannsókna. Meiri hluti nefndarinnar hefur nú viðurkennt þessar ábendingar og gert tillögu um breytingar á frumvörpunum í þessa veru, m.a. um að krafa til fjárfestinga í rannsóknum og þróun á 12 mánaða tímabili er lækkuð úr 20 millj. kr. niður í 5 millj. kr. og að áhersla er færð frá grunnrannsóknum og nær markaðnum þar sem hugmyndir eru hagnýttar og nálægt því að þeim megi hrinda í framkvæmd. Þetta er vel. Jafnframt leggur minni hlutinn til nokkrar breytingar á málunum:

1. Markmið sem fram koma í 1. gr. frumvarpsins mættu gjarnan fela í sér skýrar og mælanlegar stærðir, mælanleg markmið. Minni hlutinn leggur til að tölulegum stærðum um fjölda viðbótarstarfa í nýsköpun verði bætt inn í markmiðsákvæði frumvarpsins, sem reikna megi með að verði um 1.000 á tímabilinu 2010–2013, sem auki almenna fjárfestingu í nýsköpun um allt að 3 milljarða og auki skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga samtals um 1 milljarð á sama tímabili.

2. Þar sem Rannís mun fara með ákvörðunarvald, verði frumvarpið samþykkt, leggur minni hlutinn áherslu á að sérstök fagnefnd skipuð mönnum með mikla reynslu úr nýsköpunarmálum komi að málsmeðferðinni. Nú er það svo að Rannís hefur yfir að ráða fagnefndum sem eru á mismunandi fagsviðum, t.d. félagsvísindum, tækni og öðru slíku, en við leggjum til að skipuð verði sérstök nefnd sem eigi að uppfylla það hlutverk sem frumvarp þetta fjallar um og að sú fagnefnd verði skipuð fólki með mikla reynslu.

3. Lagt er til að réttur nýsköpunarfyrirtækja til sérstaks frádráttar frá álögðum tekjuskatti verði hækkaður úr 15% upp í 20% af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna.

4. Lagt er til að árleg viðmiðunarmörk einstaklinga samkvæmt frumvörpunum til frádráttar frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga í viðurkenndu nýsköpunarfyrirtæki verði hækkuð úr 300.000 kr. í tilviki einstaklinga og 600.000 kr. hjá hjónum upp í 2.000.000 kr. í tilviki einstaklinga og 4.000.000 kr. hjá hjónum. Nefndin leggur auk þess áherslu á að skoðað verði sérstaklega, að liðnum tveimur árum, að rýmka heimildir skattaðila til fjárfestinga í fjárfestingarsjóðum sem sérhæfa sig í kaupum á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum. Með því er hægt að auka gæði fjárfestingarkosta og draga úr áhættu, samanber ábendingu frá stjórnendum í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum sem komu á fund nefndarinnar.

5. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að Kauphöllin telur að svo frumvarpið nái tilgangi sínum sé rétt að huga betur að fjárfestavernd. Fjárfestar þarfnast upplýsinga til að geta lagt mat á fjárfestingar, hvort sem er í nýsköpunarfyrirtækjum eða í öðrum fjárfestingum. Þar sem miðað er við að almenningur geti sérstaklega fjárfest í nýsköpunarfyrirtækjum tekur minni hlutinn undir með umsögn Kauphallarinnar að brýnt sé að vanda upplýsingagjöf til fjárfesta. Byggja þarf upp glatað traust almennings á áhættufé almennt með nýjum reglum um gagnsæi og banni við lánum hlutafélaga til eigenda sinna og kaupum þeirra á hlutabréfum eigenda sinna. Að lágmarki væri æskilegt að fyrirtækin lýstu rekstrinum, skiluðu fjárhagsupplýsingum reglulega og greindu frá öðru því sem verðmótandi gæti talist.

Minni hlutinn leggur til að frumvörpin verði samþykkt en jafnframt verði gerðar breytingar í þá átt sem ég hef hér farið yfir og birtast á sérstöku þingskjali sem liggur frammi.

Minni hlutinn samanstendur af fulltrúum Sjálfstæðisflokks í efnahags- og skattanefnd og fulltrúa Framsóknarflokks í sömu nefnd og erum við sammála um þetta.

Að lokum langar mig til að þakka nefndarriturum fyrir óeigingjarnt starf við að koma saman þessu minnihlutaáliti.