138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[12:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir tveimur árum mælti ég fyrir tillögu til þingsályktunar á Alþingi um sérstakar skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna með það að markmiði að efla nýsköpun í atvinnulífinu og auka fjölbreytni þess enn frekar. Það var ekki í fyrsta sinn sem unnið hafði verið að framgangi slíkra hugmynda á vegum Framsóknarflokksins þar sem flokksþing okkar hefur áður ályktað um þessi mál og unnið hafði verið að framgangi þeirra í iðnaðarráðuneytinu í tíð Framsóknarflokksins.

Fyrirmyndin er þó ekki ný af nálinni því að sífellt fleiri þjóðir Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, hafa tekið upp slíkt hvatakerfi á liðnum árum en árið 1996 var slíkur stuðningur við lýði hjá 12 ríkjum OECD, 18 árið 2007 og 21 ríki í fyrra. Hefur stuðningskerfið þótt gefast það vel að þróunin er sem sjá má öll í aðra áttina.

Í fyrrgreindri þingsályktun minni og annarra þingmanna Framsóknarflokksins var lagt til að Alþingi mundi fela fjármálaráðherra að hefja þegar undirbúning þess að heimila skattaívilnanir vegna kostnaðar sem fyrirtæki leggja í vegna rannsókna og þróunar. Miða ætti við skilgreind og afmörkuð verkefni og setja ákveðið hámark á endurgreiðslufjárhæð hvers árs. Var þar einkum vísað til reynslu Norðmanna og uppbyggingu þess stuðningskerfis sem komið hafði mikilli hreyfingu á nýsköpunarstarf norskra fyrirtækja. Til að mynda töldu 80% þátttakenda í norska kerfinu að verkefni þeirra hefði ekki komist á legg án þessa stuðnings, um 50% töldu að verkefnin hefðu aukið verðgildi fyrirtækja sinna og rúm 60% töldu að kerfið hefði aukið einbeitni þeirra í nýsköpun og þróun.

Staðreyndin er sú að fjölgun vel launaðra starfa í fyrirtækjum sem skapa verðmæti og þekkingu er háð öflugu nýsköpunarstarfi. Til að svo megi verða þarf að búa atvinnulífi hér á landi hagstæð starfsskilyrði en jafnframt þurfa fyrirtæki stuðning fyrstu starfsárin til rannsókna- og þróunarstarfa. Fyrir tilstuðlan aðgerða af þessum toga má ætla að fjöldi nýrra starfa skapist hér á landi á næstu árum sem muni breikka atvinnuflóruna og skjóta þannig fleiri og styrkari stoðum undir öflugt velferðarsamfélag á Íslandi. Nú rúmum tveim árum eftir að ég flutti málið á Alþingi virðist sem stjórnvöld séu loks að vakna til meðvitundar um mikilvægi þess. Fjármálaráðherra hefur þannig lagt fram það frumvarp sem hér er til umræðu og miðar að uppbyggingu stuðningskerfis við rannsóknir og þróun hér á landi og ber að fagna því þótt vissulega hefði mátt grípa fyrr til aðgerða.

Framsóknarmenn munu nú sem fyrr styðja öll góð mál sem ríkisstjórnin flytur og má telja að til framfara horfi. Því miður eru þau mál of fá það sem af er starfstíma hennar en batnandi mönnum er best að lifa. Með sama hætti er það von mín að stjórnarþingmenn rífi sig upp úr skotgröfum sínum, kyngi stolti sínu stundum og styðji við góð mál okkar í stjórnarandstöðunni. Ef svo hefði verið í þessu máli hefði íslensk nýsköpunar- og sprotastarfsemi notið mun betri starfsskilyrða undanfarin tvö ár en raunin hefur verið og tæki sem við höfum til að vinna gegn atvinnuleysinu og skapa fjölbreytt og vel launuð störf væru fleiri, öflugri og virkuðu betur.

Virðulegi forseti. Minni hluti efnahags- og skattanefndar hefur lagt til breytingartillögur sem eru til bóta á því frumvarpi sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Hann lagði áherslu á að frumvarpið í þeirri mynd sem það var lagt fram gagnaðist ekki sprotafyrirtækjum heldur stórum og meðalstórum fyrirtækjum. Þá sé lögð allt of mikil áhersla á háskólarannsóknir og nýsköpun á því takmarkaða sviði. Ég fagna því að meiri hluti nefndarinnar hefur viðurkennt þessar ábendingar og gert tillögu um breytingar á frumvarpinu, m.a. um að krafa til fjárfestinga í rannsóknum og þróun á 12 mánaða tímabili er lækkuð úr 20 millj. kr. niður í 5 millj. kr. Þetta mun leiða til þess að minni fyrirtæki munu hafa aðgang að þeim skattaívilnunum sem hér standa til boða.

Þá mættu markmið sem koma fram í 1. gr. frumvarpsins gjarnan fela í sér skýrari og mælanlegri stærðir. Ég tek undir þær tillögur minni hlutans að tölulegum stærðum um fjölda viðbótarstarfa í nýsköpun verði bætt inn í markmiðsákvæði frumvarpsins, sem reikna megi með að verði um 1.000 á tímabilinu 2010–2013, sem auki almenna fjárfestingu í nýsköpun um 3 milljarða og auki skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga samtals um 1 milljarð á sama árabili.

Ég tek einnig undir þær tillögur sem minni hlutinn hefur lagt fram að þar sem Rannís fari með ákvörðunarvaldið, verði frumvarpið samþykkt, verði lagt til að sérstök fagnefnd skipuð mönnum með mikla reynslu úr nýsköpunarmálum komi að málsmeðferðinni. Þetta er gríðarlega mikilvæg ábending.

Þá tek ég heils hugar undir það að réttur nýsköpunarfyrirtækja til sérstaks frádráttar frá álögðum tekjuskatti verði hækkaður úr 15% upp í 20% af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna.

Þá tel ég mjög mikilvægt að árleg viðmiðunarmörk einstaklinga, samkvæmt frumvörpunum báðum sem hér eru lögð fram, til frádráttar frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga í viðurkenndu nýsköpunarfyrirtæki verði hækkuð úr 300.000 kr. í tilviki einstaklinga og 600.000 kr. hjá hjónum upp í 2.000.000 kr. í tilviki einstaklinga og 4.000.000 kr. hjá hjónum. Ég held að þarna sé kominn mikill og góður hvati til þess að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.

Þá tel ég mikilvægt að skoðað verði sérstaklega, að liðnum tveimur árum, að rýmka heimildir skattaðila til fjárfestinga í fjárfestingarsjóðum sem sérhæfa sig í kaupum á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum. Með því er hægt að auka gæði fjárfestingarkosta og draga úr áhættu, samanber ábendingu frá stjórnendum í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum.

Komið hefur fram að Kauphöllin telur að til þess að frumvarpið nái tilgangi sínum sé rétt að huga betur að fjárfestavernd. Fjárfestar þarfnast upplýsinga til að geta lagt mat á fjárfestingar, hvort sem er í nýsköpunarfyrirtækjum eða í öðrum fjárfestingum. Þar sem miðað er við að almenningur geti sérstaklega fjárfest í nýsköpunarfyrirtækjum tek ég undir með umsögn Kauphallarinnar að brýnt sé að vanda upplýsingagjöf til fjárfesta. Byggja þarf upp glatað traust almennings á áhættufé almennt með nýjum reglum um gagnsæi og banni við lánum hlutafélaga til eigenda sinna og kaupum þeirra á hlutabréfum eigenda sinna. Að lágmarki væri æskilegt að fyrirtækin lýstu rekstrinum, skiluðu fjárhagsupplýsingum reglulega og greindu frá öðru því sem verðmótandi gæti talist. Þá mun ég styðja þá breytingartillögu sem minni hlutinn lagði fram í þessu skyni.

Það hefur komið fram í máli meiri hlutans að til standi að breyta þessum lögum fljótlega og væntanlega þá til þess að færa þau í þá átt sem stjórnarandstaðan hefur lagt til í málinu, a.m.k. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, þeir sem eru í efnahags- og skattanefnd.

Ég held að nær væri að meiri hlutinn mundi taka þessar ábendingar til skoðunar strax á milli 2. og 3. umr. og klára frumvarpið. Hætta er á því þegar mál eru ekki fullkláruð að það gleymist að leiðrétta þau og styrkja þau eins og vera ber þannig að tilgangur þeirra nái fram að ganga.

Að lokum fagna ég því að baráttumál mitt frá því að ég kom inn á þing skuli vera orðið að veruleika, jafnvel þó að ég telji að stíga þurfi stærri og vandaðri skref í málinu. Batnandi mönnum er best að lifa. Það skal sagt ríkisstjórninni til hróss að ekki er allt alslæmt sem frá henni kemur og þetta er væntanlega með því jákvæðara.