138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[12:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég skrifaði undir nefndarálit minni hlutans með fyrirvara og ég ætla að lýsa þeim fyrirvara hér. Þannig er að ríkisstjórnin er á markvissan hátt að þrengja að fyrirtækjum á allan máta, frá öllum hliðum. Verið er að leggja skatta á hagnað og arð og söluhagnað, leggja á auðlindagjald og ráðast á sjávarútveginn með afskriftaleiðinni. Ríkisstjórnin er bara almennt séð mjög neikvæð gagnvart áhættufé. Samt hefur það fé orðið fyrir miklu áfalli og er eiginlega trausti rúið og ég held að það sé leitun að manni sem er tilbúinn til að fjárfesta í hlutabréfum eftir þetta áfall sem varð. Ekkert er gert til að skapa aftur það traust sem hvarf þegar menn lesa um gífurlegar millifærslur og lán til hluthafa og annað slíkt sem við höfum verið að heyra nánast vikulega ef ekki oftar allt síðasta ár. Allt hefur það grafið undan trausti vegna þess að þeir aðilar sem fóru þannig með fyrirtækin, bæði banka og önnur fyrirtæki, fóru í rauninni þvert á hagsmuni minni hluta hluthafa sem voru tugir þúsunda.

Ég er í sjálfu sér sáttur við þetta frumvarp enda skrifaði ég undir minnihlutaálitið og styð það. Ég er sáttur við það að því gefnu að búið sé að þrengja svo mikið að atvinnulífinu að það þurfi aftur að fara að opna dyr til að hleypa mönnum inn í áhættufé. Ég hef reyndar enga trú á því að þetta hafi nokkur áhrif til nýsköpunar vegna þess sem ég gat um áður, um vantraustið á áhættuforminu yfirleitt, en allt í lagi, það má reyna. Ég hefði viljað að öll fyrirtæki í landinu fengju svona fyrirgreiðslu, bara öll, og að menn væru miklu jákvæðari gagnvart áhættufé, ekki veitir af ef við ætlum að koma einhverju í gang á því sviði.

Í fyrsta lagi þurfa menn að sækja um og það kostar náttúrlega helling og það hefði verið miklu betra að gera þetta bara almennt fyrir öll fyrirtæki. Svo kemur að spurningunni: Hvað er nýsköpun? Og þá fer málið að vandast heldur betur fyrir mér alla vega. Á Ísafirði er kona sem bjó til dúkkulísuforrit og er að verða með hæstu skattgreiðendum þar. Ég kalla þetta nýsköpun, frú forseti, ekki spurning. Við lesum um stúlku sem hannar föt, afskaplega merkilegt. Ég kalla það líka nýsköpun, frú forseti. Hvorugt verkefnið hefði fengið styrk úr þessum sjóðum, annað vegna þess að það þarf sennilega ekkert á því að halda og hitt sennilega, ja, það má kannski reyna það. En oft og tíðum er nýsköpun fólgin í því að markaðssetja.

Í ferðamannaþjónustunni og hjá bændum er ótrúlega mikil gróska í nýsköpun. Ég las um mann sem skipulagði hundasleðaferðir uppi á jökli, alveg frábær hugmynd. Ég veit ekki hvort það eru miklar rannsóknir eða þróun í kringum það eða hvort hann hafi fengið styrk til þess, en það er nýsköpun. Það er svo erfitt, frú forseti, að búa til opinbert hugtak yfir nýsköpun, að segja: Þetta er nýsköpun og þetta ekki. Það er svona svipað og með listir. Ég greiddi einmitt atkvæði gegn því að búinn væri til einhver opinber list með því að borga laun til listamanna, vegna þess að ég tel að list eigi að vera óháð ríkinu og ríkið eigi ekki að segja: Þetta er list og þetta er ekki list. Mér finnst líka að ríkið eigi ekki að segja: Þetta er nýsköpun og þetta er ekki nýsköpun, vegna þess að nýsköpun er mjög víða.

Þetta eru fyrirvarar mínir við frumvarpið. Ég styð það vegna þess hvernig búið er að þrengja að atvinnulífinu, hvernig búið er að loka áhættufé inni. Þar þarf að opna aftur dyr. Ég styð frumvarpið en ég vildi miklu frekar að allt atvinnulífið, allt áhættufé í landinu nyti sömu kjara.