138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[12:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til stendur, ef áætlanir stjórnarflokkanna ná fram að ganga, að fara út í viðamestu skattkerfisbreytingar sem gerðar hafa verið á Íslandi í áratugi. Jafnframt er í þessum breytingum fólgið að tekjuskattskerfinu verður þannig háttað að sennilegt er, samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra, að eftirágreiðslur muni aukast mjög til muna og ábyrgð af því hvernig fólk raðast í skattþrep er sett á launagreiðendur.

Á fund efnahags- og skattanefndar hafa komið ótalmargir gestir og lýst áhyggjum af því að verið sé að flækja skattkerfið, gera það ógagnsærra og að álagið á skattstofur landsins muni aukast gríðarlega í kjölfarið, álag vegna upplýsingagjafar, þjónustu og eftirlits. Á sama tíma á hér að fara út í að gera umfangsmiklar breytingar á því kerfi sem nú er ríkjandi, að skattstofur séu dreifðar um landið, og flytja á verkefni á milli umdæma og annað slíkt. Nú er ljóst að allar slíkar breytingar kalla á mikla þjálfun og endurskipulagningu og þetta á að gera á sama tíma og ráðast á í þessar gríðarlega miklu skattkerfisbreytingar.

Mig langaði til að spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur hvort hún telji ráðlegt að fara út í þessar breytingar á sama tíma og umfangsmiklar skattkerfisbreytingar eru gerðar.