138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[12:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir segir að við séum ekki að fara út í kerfisbreytingu á skattkerfinu. Þá langar mig í fyrsta lagi til að spyrja hana hversu umfangsmiklar breytingar þurfi að gera á skattkerfi þannig að það teljist kerfisbreyting. Nú er ljóst að verið er að skipta úr einföldu kerfi þar sem er eitt skattþrep yfir í tekjuskattskerfi þar sem eru þrjú skattþrep, það er verið að skipta úr virðisaukaskattskerfi þar sem eru þrjú skattþrep, 0%, 7% og 24,5%, í kerfi þar sem eru fjögur skattþrep ásamt öðrum breytingum. Ef þetta er ekki kerfisbreyting er ég hræddur um að ég beri ekki skynbragð á hvað kerfisbreytingar eru en það má vel vera að svo sé.

Mig langar í öðru lagi að spyrja hv. þingmann að því hvort hún telji að skattstjóri á skattstofu Suðurlands, sem hefur lýst miklum áhyggjum af þeim breytingum sem eru að verða á skattumdæmum og hefur bent á hinar flóknu skattkerfisbreytingar í því sambandi, hafi rangt fyrir sér og hvort hv. þingmaður telji sig hafa meiri innsýn í það álag sem verður á skattstofum en skattstjórarnir sjálfir.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hv. þingmann að því enn einu sinni, ef svörin eru öðruvísi en í fyrra andsvari, hvort hún telji það rangt hjá mér að það að sameina skattumdæmin, færa til verkefni og annað slíkt, muni (Forseti hringir.) kalla á mikla þjálfun og endurskipulagningu á rekstri sem (Forseti hringir.) taki þá tíma frá skatteftirliti og þjónustu við skattgreiðendur.