138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[14:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. 11. þm. Reykv. n., formanni allsherjarnefndar, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrir framsöguna sem gerði vel grein fyrir niðurstöðu allsherjarnefndar í þessu máli. Hér var eins og kom fram um sameiginlega niðurstöðu að ræða og rétt að undirstrika það að full samstaða var í nefndinni um þessa afgreiðslu. Ég verð persónulega að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst mjög ánægjulegt að málið skuli vera komið þetta langt og að samstaða skuli vera um það vegna þess að í frumvarpinu eru faldar margar mjög mikilvægar breytingar sem verða til þess annars vegar að samræma, eins og hv. formaður gerði grein fyrir, reglur almennra hegningarlaga við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir á mjög mikilvægum sviðum. Hins vegar er um að ræða ótvíræðar bætur sem varða heimildir hins opinbera til þess að gera upptækan t.d. ávinning af ólögmætu athæfi. Þarna er um talsvert mikilvæga breytingu að ræða vegna þess að í framkvæmd hefur reynst erfitt að ná t.d. ávinningi af ólögmætri skipulagðri brotastarfsemi, sem því miður er farin að gera vart við sig í auknum mæli eins og fram kom hjá bæði umsagnaraðilum og gestum nefndarinnar.

Eins og hv. formaður gerði grein fyrir eru kaflarnir eða efnisþættirnir í meginatriðum fjórir sem fjallað er um í frumvarpinu. Það eru hryðjuverk, upptaka eigna, mansal og skipulögð brotastarfsemi. Þær breytingar sem lagðar eru til eru allar til framfara hver á sínu sviði. Svo ég byrji á öfugum enda má segja að varðandi skipulagða brotastarfsemi er um að ræða viðbrögð, ekki bara hér á landi heldur líka í nágrannalöndunum, við því að skipulögð brotastarfsemi er farin að koma upp í meiri mæli en áður. Nú verðum við að ætla að hún sé ekki ný af nálinni í þessum löndum, þó að alla vega við á Norðurlöndum höfum ekki fyrr en á síðustu árum staðið frammi fyrir þeim vanda, og því kannski ekki óþekkt, en hins vegar hafa dæmi um skipulagða brotastarfsemi komið æ skýrar í ljós. Við sjáum það bæði á einstökum málum sem upp hafa komið og eins á vinnu t.d. greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem hefur lagt fram greinargerðir um að skipulögð brotastarfsemi sem tengist skipulagðri brotastarfsemi í öðrum löndum sé farin að verða miklu meira vandamál hér. Ákvæði sem eru til þess fallin að sporna gegn slíkri þróun og gefa réttarvörslukerfinu aukið svigrúm til að bregðast við því eru auðvitað af hinu góða.

Hér eru líka ákvæði sem varða mansal og við höfum vissulega verið að reyna að stíga ákveðin skref á undanförnum árum í því að — hvað eigum við að segja, gera lagaumhverfi okkar færara til að takast á við vandamál sem tengjast mansali. Hér er um að ræða mikilvægt skref í þá átt. Hins vegar er ljóst að það verk er ekki að fullu unnið, því er ekki lokið, og það þarf að halda áfram á því sviði. Það er athyglisvert að tekin var sú ákvörðun með breytingum á Stjórnarráðinu, eins og formaðurinn gat um áðan, að mansalsmál heyra nú alfarið undir dómsmálaráðherra, sem er jákvætt vegna þess að það virtist valda einhverjum vandkvæðum í sambandi við framkvæmd mála að þau mál skiptust á tvö ráðuneyti, annars vegar á dómsmálaráðuneytið og hins vegar á félagsmálaráðuneytið. Nú er þetta á einum stað og það á að vera til þess að auðveldara sé að hafa heildaryfirsýn yfir þennan málaflokk, þau vandamál sem við er að glíma, þau úrræði sem þarf að nota bæði hvað varðar hegningarlögin og brotastarfsemina sem slíka en eins varðandi úrræði sem geta orðið til þess að hjálpa fórnarlömbum mansals. Þarna er einnig um jákvætt skref að ræða.

Ákvæðin um upptöku eigna eru óvenjuleg eins og hv. formaður gerði grein fyrir. Gengið er lengra í því að flytja í raun sönnunarbyrði yfir á þá sem eignaupptaka beinist að en áður. Það er ekki að ástæðulausu. Það tengist því að fram til þessa hefur verið töluvert erfitt að sýna fram á það í einstökum málum að eignir eigi rætur sínar að rekja til stórfelldrar eða skipulagðrar brotastarfsemi og þess vegna var þar um dálítið viðkvæmt svið að ræða. Auðvitað er almenna reglan sú að ákæruvaldið hefur sönnunarbyrði fyrir því að um sekt sé að ræða. Við höfum fylgt þeirri gömlu meginreglu Rómarréttarins, in dubio pro reo, þ.e. að allur vafi skuli túlkaður sakborningi í vil. Þetta atriði var mikið rætt, bæði núna en þó ekki síður á fyrri stigum málsins þegar málið var til umfjöllunar í allsherjarnefnd. Ljóst er af þeim upplýsingum sem nefndirnar hafa fengið á þeim tíma sem málið hefur tekið að refsiréttarnefnd vann töluverða vinnu við að undirbyggja þá heimild sem hér er að finna með það fyrir augum að tryggja að ekki væri gengið lengra í þeim efnum en almenn sjónarmið og mannréttindaákvæði leyfðu.

Við mat á niðurstöðunni er ég þeirrar skoðunar að ekki sé gengið lengra en heimilt er. Ég er því nokkuð viss um að þetta ákvæði mun standast hvort sem er fyrir íslenskum dómstólum eða Mannréttindadómstól Evrópu og tel að ekki sé farið út fyrir nein mörk í þeim efnum. Hins vegar er alveg ljóst að þessu ákvæði verður að beita af varfærni einmitt vegna þess að um undantekningu frá meginreglu er að ræða og þarna skarast með vissum hætti mikilvæg sjónarmið, annars vegar um það að ólögmætur ávinningur skipulagðrar brotastarfsemi náist, það náist í það fé sem menn ná til sín með stórfelldri og skipulagðri brotastarfsemi, en um leið að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er. Ég held því að í þessu sé jafnvægi sem er mikilvægt þegar refsiréttarlegar reglur af þessu tagi eru settar.

Varðandi hryðjuverkakaflann er rétt að geta þess að frá því að frumvarpið kom fyrst fram á þingi hafa nokkuð ákvæði verið felld út og er svo sem ekkert um það að segja. Ég átti sem nefndarmaður í allsherjarnefnd og formaður nefndarinnar þátt í því að samþykkja og styðja þau ákvæði sem þar voru. Ég geri hins vegar ekki athugasemdir við þá málsmeðferð að fella þessi umdeildu atriði úr frumvarpinu til að koma hinum mikilvægu málunum í gegn vegna þess að málið hefur í heild tafist meira í meðförum þingsins, á þremur þingum líklega, en æskilegt hefði verið en nú er búið að taka út fyrir sviga þessi umdeildustu atriði hvað varðar hryðjuverkin og fram hefur komið að áfram er unnið að útfærslu ákvæða af því tagi. Rétt er að minna á að rótin að því að tillögur komu frá þáverandi dómsmálaráðherra um að taka þessi ákvæði inn í frumvarpið var meðal annars samþykkt Evrópuráðsins um varnir gegn hryðjuverkum. Ráðuneytið taldi sig á þeim tíma vera að koma til móts eða uppfylla þau ákvæði sem var að finna í þeim samningi eða þeirri niðurstöðu Evrópuráðsins. Það er verkefni sem við geymum um sinn en eigum væntanlega von á frumvarpi um það efni. Við getum þá þegar þar að kemur farið yfir og eftir atvikum tekist á um þau umdeildu mál sem þar er að finna.

Að lokum vildi ég, hæstv. forseti, taka undir þau sjónarmið sem komu fram í lok ræðu hv. formanns allsherjarnefndar um mikilvægi þess að við fjárlagagerðina verði staðinn vörður um þau mál sem hér er fjallað. Ég tek undir að það er fagnaðarefni að við 2. umr. fjárlaga hefur verið komið til móts við ákveðin sjónarmið í því sambandi, mjög mikilvægt, og ég vil nota þessi síðustu orð mín til að undirstrika að við lokameðferð fjárlaga verði áfram gætt að þessum málaflokki, hvort sem við erum að tala um lögreglu, dómstóla, fangelsi eða réttarvörslukerfið í heild. Það liggur fyrir að það mun reyna miklu meira á þetta kerfi á næstu missirum en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er eins og menn þekkja bankahrunið og afleiðingar þess sem vega þar þungt en eins hefur brotastarfsemi almennt færst í aukana, brot af öðru tagi sem ekki varða beinlínis bankakerfið og snerta marga þætti. Það er því gríðarlega mikilvægt að á viðkvæmum og erfiðum tímum í sögu þjóðarinnar sé staðinn vörður um þau grunnkerfi sem varða löggæslu, dómstóla, saksókn og fangelsismál þannig að borgararnir geti treyst því að þetta kerfi virki þrátt fyrir að erfiðir tímar séu í samfélaginu.