138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

framhaldsskólar.

325. mál
[14:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Þetta frumvarp er ekki neitt sérstakt gleðiefni en með því er lagt til að við lögin um framhaldsskóla bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir því að fram til vors 2012 verði framhaldsskólum heimilt að innheimta gjald fyrir nám sem stundað er utan reglubundins daglegs starfstíma framhaldsskóla og í fjarnámi. Miðað er við að gjaldið megi nema allt að þriðjungi af meðalkennsluframlagi á nemanda á framhaldsskólastigi samkvæmt fjárlögum miðað við fullt nám. Efnislega er þetta sama heimild og var að finna í 2. mgr. 7. gr. eldri laga um framhaldsskóla og má því segja að hér sé lagt til að bakka aftur í gamla lagaumhverfið um framhaldsskóla hvað þetta varðar um sinn meðan mestu efnahagsþrengingarnar standa yfir og auðvelda um leið skólunum að innheimta gjöld fyrir nám í kvöldskóla en ábendingar hafa borist þess efnis að nýju lögin sem gera ráð fyrir 10% kostnaðarþátttöku að hámarki geri þeim erfitt um vik í þessum efnum.

Með nýju lögunum, nr. 97/2008, voru gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla þrengdar frá því sem var í lögum nr. 80/1996. Þannig var ákveðið í 4. mgr. ákvæðisins að hámarksfjárhæð gjaldsins skyldi miðast við 10% af meðalkennsluframlagi á nemenda samkvæmt fjárlögum miðað við fullt nám. Annars skyldi gjaldið reiknast hlutfallslega miðað við fjölda þeirra námsgreina sem valdar yrðu í kvöldskóla eða fjarnámi. Í reglugerð nr. 614/2009, um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla, er hámarkið útfært þannig að taka má allt að 2.500 kr. gjald fyrir hverja námseiningu.

Fyrir gildistöku laganna var framhaldsskólum heimilt að innheimta allt að þriðjungi kennslukostnaðar með nemendagjöldum. Framlög til skólanna í fjárlögum miðuðust þá við 2/3 af kostnaði við nemendaígildi. Eftirstandandi þriðjungi var mætt með nemendagjöldum. Til að mæta lækkun heimilda skóla til innheimtu kennslugjalda verður að hækka framlög í fjárlögum úr 67% í 90% af nemendaígildum í kvöldskóla. Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er slík breyting ekki í fjárlagaforsendum 2010. Því mun vanta um 20% upp á að framhaldsskólar fái framlög er samsvari kennslukostnaði kvöldskóla. Að óbreyttum lögum er ljóst að lagabreytingin mun leiða til aukins kostnaðar fyrir framhaldsskóla sem hafa boðið upp á nám í kvöldskóla umfram þær kröfur sem gerðar hafa verið um hagræðingu innan framhaldsskólans. Telst okkur til að þetta gætu verið u.þ.b. 45 millj. kr. Í þessu ljósi er lagt til að ákvæði 2. mgr. 33. gr. eldri laga um heimild til framhaldsskóla til innheimtu gjalda gildi tímabundið eða út skólaárið 2011–2012. Er hér fylgt sömu tímamörkum og ákveðin voru þegar breytt var ákvæðum laga um framhaldsskóla að því er varðar heimildir til töku efnisgjalda sem samþykkt var hér í sumar.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir frumvarpi þessu og legg til að því verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni 1. umr.