138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[16:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé óvíða ef nokkurs staðar sem það er jafnborðleggjandi og augljóst hversu miklir hagræðingarmöguleikar og möguleikar til að bæta þjónustu og draga úr kostnaði eru fólgnir í breytingum af þessu tagi eins og í tilviki skattsins þar sem landfræðileg landamæri eru meira og minna horfin, framtöl orðin rafræn og hægt að sérhæfa og verkaskipta verkefnunum algjörlega án tillits til staðsetningar með kostum fjarvinnslu og kostum netsins.

Mér finnst það að leggjast gegn þessum breytingum, þó að auðvitað megi alltaf deila um hvernig að slíku skuli staðið og hvenær það sé gert, vera svona næstum því eins og að heimta það að pósturinn fari að ríða með bréf á hestum milli landshluta á nýjan leik. Það er ekkert annað en afturhald í sjálfu sér að horfast ekki í augu við þá miklu möguleika sem tæknin og breyttar aðstæður fela í sér í þessum efnum. Reynt hefur verið að vinna þetta og undirbúa eins vandlega og kostur er og það er misskilningur að þessar breytingar hafi einhverjar umtalsverðar (Forseti hringir.) breytingar í för með sér strax hvað varðar starfsemina á skattstofunum (Forseti hringir.) í landinu. (TÞH: Lestu umsagnir skattstjóra …)