138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:08]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess sem formaður viðskiptanefndar að viðskiptanefnd var falið að athuga hvort hægt væri að fresta gildistöku frumvarpsins. Við fengum fulltrúa m.a. úr ráðuneytinu til að fjalla um það. Það kom fram í máli þeirra að dómur væri fallinn hjá EFTA-dómstólnum sem tilgreindi það að öll aðildarríki EES-svæðisins þyrftu að innleiða þessa tilskipun.

Hvað varðar að tilskipunin muni leiða til hærra vöruverðs er það rétt en aðeins í skammtímanum því að svæðisbundin tæming þýðir jafnframt að framleiðendur á heimasvæðinu fá stuðning í skammtímanum, sem sagt hærra verð fyrir vöru sína sem virkar náttúrlega sem hvati fyrir fleiri framleiðendur til að koma inn á (Forseti hringir.) markaðinn og því mun verð í langtímanum fara aftur lækkandi.