138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins til að gera athugasemdir við störf þingsins. Við höfum orðið vitni að því að mikið af villum kemur fram í mjög mörgum málum. Oft og tíðum er um að ræða ranga hugtakanotkun þar sem hlutirnir eru kallaðir röngum nöfnum. Menn vita ekki hvort þeir hafa leyfi til að selja banka eða ekki. Það er verið að gera alls konar runur af frekar pínlegum mistökum. Þetta gerist, frú forseti, af því að ekki er nægur tími til undirbúnings og ekki nægur tími til að skoða hlutina. Eins og ég hef oft sagt áður tel ég brýna þörf á því að betra skipulagi sé komið á þessi praktísku störf þingsins. Aragrúi af málum sem þingmenn hafa ekki einu sinni tíma til að kynna sér almennilega er afgreiddur í miklu tímahraki og þá er ég ekki eingöngu að tala um okkur í Hreyfingunni heldur verð ég vitni að því í samtölum við fullt af öðrum þingmönnum að þeir hafa oft og tíðum ekki hugmynd um hvað verið er að greiða atkvæði um. Þetta er dapurleg vinnsla á löggjöf og henni þarf að breyta.

Mig langar til að mælast til þess, frú forseti, að tekið verði af skarið strax í jólafríinu í upphafi vorþings, sest niður og reynt að finna út með hvaða hætti er best að vinna bót á þessu, t.d. með því að einfaldlega verði gerð krafa um að þingið byrji að sinna strax á fyrstu viku þingsins þeim málum sem menn vita að verði að afgreiða fyrir þinglok, eins og núna fyrir áramót. Það verður að gefa nægan undirbúningstíma til að vinna mál, að öðrum kosti muni þau ekki fara í gegn. Það er hvorki boðlegt fyrir þingmenn né fyrir þjóðina að mál séu afgreidd með þessum hætti og ég legg eindregið til að nýársgjöf þingsins til almennings verði að löggjöfin verði gerð betri. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)