138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal og hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Ég er alveg sömu skoðunar og þeir, við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni og það er mun skynsamlegra að gera það með öðrum hætti. Ég ætla hins vegar ekki að fara að taka pólitíska umræðu um það undir þessum lið en við getum gert það svo sem þegar við ræðum um skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar.

Ég vil hins vegar koma aðeins inn á það að núna eru til umfjöllunar í fjárlaganefnd nokkuð metnaðarfullar tillögur frá okkur sjálfstæðismönnum sem við lögðum fram við 2. umr. fjárlaga þar sem við bjóðum ríkisstjórninni upp á það að setja niður vinnuhóp í nefndinni til að auka niðurskurðinn um 8 milljarða kr. Við tökum þarna að mínu viti mjög ábyrga afstöðu við þau skilyrði sem við búum við í dag og segjum: Við skulum styðja við ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana í þessum tillögum í staðinn fyrir að gera eins og hefur verið gert mörg undanfarin ár, að leggja nánast eingöngu til útgjaldatillögur og oft og tíðum mjög margar breytingartillögur til að láta einstaka þingmenn í sumum kjördæmum fella þær og síðan geta þeir haldið áfram að djöflast á því.

Frú forseti. Ég mun sjálfur ekki persónulega leggja fram neinar breytingartillögur sem munu koma stjórn og þingmönnum í mínu kjördæmi í vanda til að fá út úr því eitthvert pólitískt flipp vegna þess að mér finnst aðstæður í þjóðfélaginu vera þannig núna að við eigum að taka ábyrga afstöðu til þeirra vandamála sem við horfum fram á. Ég vek líka athygli á því, virðulegi forseti, að það sem er búið að gerast á undanförnum mánuðum hjá hæstv. ríkisstjórn er að hún er búin að fara í mjög miklar einskiptisaðgerðir í þessum niðurskurðartillögum sínum. Hún fer í að draga vegaframkvæmdir saman um 9 milljarða og elli- og örorkulífeyrisþega um 6,6 milljarða og svo mætti lengi telja. Einnig hef ég margoft bent á það hér að ríkisstjórnin er að færa frá tekjustofnum sveitarfélaga í kringum 2,5 milljarða til að rétta af hag ríkisins og það er ekki skynsamlegt á þessum tímum. Við bendum líka á þær tillögur okkar, sem mér finnst vera augljósar, að við getum hugsanlega selt það nýja varðskip sem við fáum á næsta ári og söluandvirði þess gæti verið 5 milljarðar kr. Svona tel ég, frú forseti, að við eigum að vinna okkur út úr vandamálunum.