138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það er nauðsynlegt að líta til þeirra aðstæðna sem uppi eru í hverju þjóðfélagi fyrir sig þegar menn reyna að leggja mat á hvaða áhrif einstakar aðgerðir í ríkisfjármálum muni hafa á eftirspurn í samfélaginu. Það er mjög mikilvægt.

Þær rannsóknir sem ég vitnaði til áðan sneru að því hvort skynsamlegra væri að lækka skatta eða auka ríkisútgjöld til þess að örva hagkerfið. Þar með var ég ekki að segja, eins og mér heyrist ákveðinn misskilningur vera uppi um, að lækka ætti skatta við þær aðstæður sem nú eru hér á Íslandi. Það sem ég hef verið að segja og Sjálfstæðisflokkurinn er að ekki er skynsamlegt að fara í skattahækkun við þær aðstæður sem nú eru.

Þá ber á það að líta, þegar menn t.d. bera aðstæður hér á Íslandi saman við aðstæður í Svíþjóð á tíunda áratugnum, að gengi íslensku myntarinnar hefur hrunið. Það hefur gert það að verkum að lán heimilanna hafa hækkað alveg gríðarlega þannig að lánsfjármagnskostnaður þeirra hefur hækkað gríðarlega. Verðtryggingin hefur líka valdið því að afborganir af verðtryggðum lánum hafa hækkað þannig að minni peningar eru eftir á heimilunum til að eyða í þjónustu og vörur sem aftur þýðir að atvinna minnkar og minni umsvif verða í hagkerfinu.

Þegar slík hækkun hefur átt sér stað á útgjöldum heimilanna, samdráttur orðið í vinnu og laun hafa lækkað er óskynsamlegt að fara í skattahækkanir eins og þær sem ríkisstjórnin ætlar sér að fara í. Allar rannsóknir benda til að afleiðingar þess verði þær að auki á samdráttinn, það er það sem mun gerast.

Við sjálfstæðismenn höfum bent á leiðir til að verja ríkissjóð án þess að þurfa að fara í slíkar skattahækkanir. Ég kalla eftir því, frú forseti, að við ræðum þær tillögur til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu því að það versta sem getur komið fyrir íslenskt þjóðfélag er að kreppan hér (Forseti hringir.) breytist í kreppuna miklu eins og gerðist í Bandaríkjunum vegna þess að bandarísk stjórnvöld brugðust vitlaust við eftir að hrun varð á fjármálamarkaði þar 1929.