138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrr í vetur bar ég fram fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um það hvort Evrópusambandið væri að bera á Íslendinga fé í formi lána eða styrkja þar sem við værum nú orðin umsóknarríki. Hæstv. utanríkisráðherra taldi það af og frá, slíkt væri algjör firra. Það væri fyrst og fremst ég sem væri að halda slíku fram því að slíkt hefði ekki komið til tals í stjórnkerfinu.

Í gær var dreift svari á þskj. 474 við fyrirspurn frá hv. varaþingmanni, Önnu Margréti Guðjónsdóttur, um það. Fyrirspurnin hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Hefur ráðherra látið kanna hvort mögulegt er að fá lán hjá fjármálastofnunum Evrópusambandsins þegar formlegri stöðu aðildarviðræðuríkis gagnvart sambandinu er náð?“

Þessari fyrirspurn var beint til hæstv. fjármálaráðherra.

Svarinu var dreift í gær og í lokaorðum þess kemur fram að rætt hafi verið um að fá slíka fyrirgreiðslu og að slík fyrirgreiðsla standi stjórnvöldum til boða. Nú er það ljóst, samkvæmt svarinu, að slík lánafyrirgreiðsla er í athugun hjá fjármálaráðuneyti og Seðlabanka.

Frú forseti. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni koma trekk í trekk með misvísandi skilaboð fyrir þing og þjóð. Þetta verðum við að athuga, hvar málin eru stödd, og ekki veitir af að eitthvert samkomulag sé á milli ráðherranna þegar þeir svara til að skera úr um það hver hefur rétt fyrir sér. Núna stend ég uppi með þá spurningu hvort hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) hafi ekki vitað betur eða hvort menn hafi hreinlega verið að leyna sannleikanum fyrir þinginu einu sinni enn.