138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Út af orðum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um Icesave vil ég bara fá að minna þingheim og þjóðina alla á að reikningurinn vegna Davesave-reikningsins úr Seðlabankanum verður hærri en reikningurinn vegna Icesave.

Það er hins vegar ekki það sem ég ætlaði að ræða um fyrst og fremst. Ég vil fá að ræða um skattamálin sem þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur orðið tíðrætt um undir þessum lið. Ég hlakka til að taka þá umræðu betur þegar frumvörpin um breytingar á skattkerfinu verða rædd. Mér leikur forvitni á að vita hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja í alvöru að við getum lokað því fjárlagagati sem við stöndum frammi fyrir án þess að hækka skatta. Mér finnst það einfaldlega óábyrgt daður við kjósendur að ætla að segja þeim að ekki sé þörf á að hækka skatta þegar við stöndum frammi fyrir því verkefni í ríkisfjármálunum að brúa stærsta bil sem við höfum þurft að gera.

Kjósendur vita enda miklu betur, þeir vita betur en þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Meiri hluti landsmanna telur að leiðin út úr kreppunni sé sú að fara blandaða leið, að hækka skatta og skera niður, sem við erum vissulega líka að gera. En einhvern veginn er það nú þannig að þegar við ráðumst t.d. í að sameina stofnanir og gera annað til að draga saman í útgjöldum ríkisins kemur hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum hér upp og mótmælir því að verið sé að sameina stofnanir. Það má ekki gera það og eina leiðin sem menn vilja fara út úr kreppunni er að skattleggja framtíðina og stela skatttekjum af þeim ríkisstjórnum sem verða munu við völd í framtíðinni. (Gripið fram í.)

Ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér en varðandi umræðuna um öldrun vil ég bara ítreka að tvö og hálft ár eru frá því byrjað var að vinna að því máli, það er löngu búið að ganga frá því manna á milli í ríkisstjórninni (Forseti hringir.) og þar er unnið samkvæmt þeirri hugmyndafræði að öldrun sé ekki sjúkdómur.