138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

ríkisútgjöld og skattar -- heilbrigðisþjónusta -- vinnulag á þingi -- fjárlagagerð -- styrkir ESB.

[11:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir gagnrýni þingmanna á hroðvirknisleg vinnubrögð síðustu dagana. Þetta er með ólíkindum, en ég ætla samt að halda áfram að tala um atvinnuna og skattamálin. Ég tel að mikilvægasta málið núna sé að örva atvinnu. Atvinnuleysi er niðurbrot fyrir viðkomandi einstakling, atvinnuleysi er verðmætatap í þjóðfélaginu og atvinnuleysi minnkar tekjur ríkissjóðs og eykur útgjöldin, þ.e. eykur hallann. Það er númer eitt, tvö og þrjú að skapa atvinnu.

Við leggjum skatt á sykur, og hvers vegna skyldi það vera gert? Til að minnka skattstofninn, minnka sykurneyslu. Á sama tíma leggur ríkisstjórnin á tvennan máta skatt á atvinnu, annars vegar með því að skattleggja tryggingagjaldið, hækka það umtalsvert, og hins vegar með því að ráðast á áhættufé sem er undirstaða þess að skapa störf. Ríkisstjórnin skattleggur atvinnuna, og hvað skyldi það hafa í för með sér, frú forseti, með hliðsjón af sykurskattinum? Það minnkar skattstofninn, það minnkar atvinnuna. Menn eru markvisst að vinna að því.

Sjálfstæðismenn hafa bent á aðra leið sem er skattlagning séreignarsparnaðar sem gerir það að verkum að það væri hægt að hafa alla skatta á næsta ári óbreytta og auka samt sem áður afganginn af ríkissjóði um 16–20 milljarða kr. Ég skora á hv. stjórnarþingmenn að skoða það að nota eign ríkissjóðs, og sveitarfélaganna því að þau fá líka af þessu 40 milljarða, í séreignarsparnaðinum til að brúa þetta bil árið 2010 sem verður það erfiðasta eftir hrunið. Strax árið 2011 (Forseti hringir.) verða fyrirtæki og einstaklingar betur í stakk búin til að taka á sig skattahækkanir.