138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[11:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Örstutt, nú er verið að ganga á kjör öryrkja og láglaunafólks. Ég nefni það að skattar eru líka hækkaðir á láglaunafólk frá gildandi lögum þar sem verðtrygging persónuafsláttar verður afnumin. Það verður eflaust erfiðara og erfiðara fyrir fólk, sérstaklega það sem er langveikt, að borga þennan kostnað í heilbrigðisþjónustu sem getur orðið umtalsverður. Það hleypur á jafnvel hundruðum þúsunda fyrir venjulegt fólk og þess vegna held ég að það sé mjög brýnt akkúrat í núverandi stöðu að taka upp kerfi sem ver þetta fólk fyrir miklum útgjöldum í heilbrigðisþjónustunni í heild sinni. Út á það gekk hugmynd þeirrar nefndar sem starfaði og vegna þess að þetta mál er eiginlega laust við alla flokkapólitík skora ég á hæstv. heilbrigðisráðherra að taka aftur upp starf nefndarinnar. Ég hef lýst mig reiðubúinn til að starfa áfram að því að reyna að klára þetta og vinna hratt og vel að því að breyta þessum reglum jafnvel frá og með 1. apríl eða 1. júlí nk., einmitt til að verja láglaunahópa fyrir miklum útgjöldum. Það var jafnvel rætt í nefndinni um að taka til umræðu tannlæknakostnað líka sem getur orðið allt að því óbærilegur fyrir fólk með lágar tekjur.