138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[11:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ef þetta frumvarp verður að lögum er enn þá frekar hallað á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Vegna kostnaðarauka sveitarfélaganna er áætlað að um 400 millj. kr. verði færðar frá sveitarfélögunum og til ríkisins. Hæstv. ríkisstjórn hefur svo sem áður fært tekjur frá sveitarfélögunum yfir til ríkisins og ég minni á að þegar tryggingagjaldið var hækkað 1. júlí færði ríkisvaldið 2 milljarða kr. frá sveitarfélögunum og því finnst mér mjög dapurlegt að menn skuli enn og aftur endurtaka það. Einnig árétta ég að umsagnarfrestur við gerð þessa frumvarps hjá hagsmunaaðilum var einungis þrír dagar. Ég tel vinnubrögðin við þetta frumvarp alls ekki nægilega góð og hvet hæstv. ríkisstjórn til að breyta þessu háttalagi hér eftir og láta kostnaðarreikna öll frumvörp þannig að það liggi alveg fyrir hversu miklar tekjur eru færðar frá sveitarfélögum til ríkisins. Ég segi nei.