138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[11:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem við sjálfstæðismenn styðjum. Það er um frestun á gildistökuákvæði lyfjalaga. Ástæðan fyrir því að þessu hefur verið frestað áður er sú að menn voru að vinna að sanngjarnara og réttlátara endurgreiðslukerfi fyrir þá sem þurfa að nota heilbrigðisþjónustu. Það var eitt af fyrstu verkum vinstri stjórnarinnar að taka þessa vinnu af þvert á vilja allra sjúklingasamtaka og þeirra sem bera fyrir brjósti hag þeirra sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Við ætlum að styðja þetta frumvarp en ítrekum vilja okkar, ekki bara Sjálfstæðisflokksins heldur allra þeirra sem er umhugað um sjúklinga í þessu landi, til að þessi nefnd og þessi vinna verði sett aftur af stað og hún kláruð.