138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

sjúkratryggingar.

324. mál
[11:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um frumvarp frá ríkisstjórninni sem heimilar ríkisvaldinu að taka gjald fyrir fólk sem liggur á sjúkrahótelum sem er ákveðin tegund sjúkrahúsa. Það að þetta mál komi í kjölfar þess máls sem við vorum með áðan segir sína sögu. Þetta er enn ein birtingarmynd þess að þörf er á að taka þessi mál fyrir í heild sinni, þ.e. greiðslu sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni. Enn og aftur greiðum við fyrir málum ríkisstjórnarinnar með því formerki að farið verði í þá vinnu sem ég nefndi í atkvæðaskýringu áðan og sú vinna verði kláruð. Undir þá ósk okkar sjálfstæðismanna taka öll sjúklingasamtök í landinu og þau samtök sem hafa hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.