138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

raforkulög.

330. mál
[12:01]
Horfa

Flm. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga sem kveður á um að fresta ákvæði 2. og 4. málsliðar 14. gr. laga um raforku.

Forsaga málsins er sú að Alþingi samþykkti í maí á síðasta ári lög um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði þar sem gerð var krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja yrði rekin í aðskildum fyrirtækjum frá og með 1. júlí 2009 í stað þess að eingöngu væri krafist bókhaldslegs aðskilnaðar. Hér er um að ræða fyrirtæki sem annars vegar afla orkunnar og selja hana hins vegar.

Skemmst er frá því að segja að í kjölfar þessara lagabreytinga hafa bæði Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur unnið að undirbúningi þess að aðskilja starfsemina svo sem að framan greinir. Í kjölfar beiðni Orkuveitu Reykjavíkur var gildistöku breytinganna á 14. gr. raforkulaga frestað til 1. janúar 2010 með samþykkt laga um breytingu á raforkulögum, en talið var rétt, í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækja varðandi fjármögnun, að framlengja tímabundna á frestun á framkvæmd ákvæða 14. gr. raforkulaga um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta eins og getið var um að framan.

Herra forseti. Málið er fullrætt í nefndinni og þar er samstaða um það af hálfu þeirra sem þar sitja og eru flutningsmenn þessarar tillögu. Ég fer í þess því á leit við hæstv. forseta að málinu verði vísað til 2. umr.