138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[12:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum er gamall kunningi, matvælafrumvarpið sjálft sem hefur verið rætt hér alllengi og hefur, eins og margir hafa vakið athygli á, átt ansi langan aðdraganda. Þetta er hluti af því að við stóðum frammi fyrir því á sínum tíma að verða að lögtaka matvælalöggjöf Evrópusambandsins og skylda hluti. Áður en til þess kom hafði verið farið mjög rækilega yfir þessi mál af hálfu stjórnsýslunnar og það gerðist í upphafi þessarar aldar að menn fóru að skoða það í ljósi þess að búið var að gera breytingar á matvælalöggjöf Evrópusambandsins í kjölfar þeirra sjúkdóma sem upp komu og Creutzfeld-Jacobs sjúkdómurinn er kannski besta dæmið um það.

Þetta gerði það að verkum að allt umhverfi matvælalöggjafarinnar sjálfrar var orðið gjörbreytt í Evrópu og möguleikar okkar á því að hafa þá fyrirvara sem áður höfðu gilt fyrir íslenskan landbúnað voru horfnir. Verkefnið sem stjórnsýslan stóð þá frammi fyrir var það að skoða með hvaða hætti hægt væri að lögtaka þessa evrópsku löggjöf án þess að það kæmi niður á íslenskum landbúnaði.

Það var farið mjög rækilega á fyrri stigum, ekki síst af hálfu forvera míns, hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar, ofan í það hvort hægt væri að komast undan því að lögtaka þessa miklu löggjöf, matvælalöggjöfina, hvort við gætum einfaldlega haldið áfram því fyrirkomulagi sem hafði verið í gildi og hefur verið í gildi fram á þennan dag. Niðurstaðan sem menn komust að, eftir að hafa grandskoðað þau mál, var að sú leið væri einfaldlega ekki fær. Sú meginbreyting og grundvallarbreyting hafði verið gerð á matvælalöggjöf Evrópusambandsins að það kallaði einfaldlega á það að við yrðum að nálgast þessa hluti með allt öðrum hætti en áður. Þess vegna stöndum við í þessum sporum.

Það er ekki lengur litið þannig á að þessu sé skipt niður í fiskhlutann, kjöthlutann, grænmetishlutann o.s.frv., um er að ræða lóðrétt skipulag á þessari löggjöf sem gerir það að verkum að undanþágur af því tagi sem við höfðum búið við, og var í raun og veru býsna góð niðurstaða frá sjónarhóli okkar, gat illu heilli ekki gilt um alla framtíð. Það var að mörgu leyti gott fyrir okkur að hafa það fyrirkomulag sem áður hafði verið fyrir margra hluta sakir. Við þurftum á því að halda að tryggja öryggi í sambandi við útflutning á fiskafurðum vegna þess að við erum útflutningsþjóð og þurfum á því að halda að ekkert trufli útflutning okkar á fiski. Það hentaði okkur líka að vera undanþegin gagnvart landbúnaðinum vegna sérstöðu okkar innan lands. Landbúnaðurinn er fyrst og fremst að framleiða fyrir innanlandsmarkað þó að við teljum okkur sjá tækifæri í möguleikum á útflutningi fyrir landbúnaðinn. En þrátt fyrir það var það okkar mat að betra væri fyrir okkur að hafa gamla fyrirkomulagið ef það væri hægt vegna þess að hagsmunir landbúnaðarins voru fyrst og fremst hagsmunir sem sneru að innanlandsframleiðslunni.

Niðurstaðan varð þá sú, sem ég hef áður rakið, að þetta var ekki hægt af ástæðum sem ég hef lauslega farið yfir og í örstuttu máli. Þá var það einfaldlega verkefnið sem við blasti að lögtaka þessar tilskipanir Evrópusambandsins, þessa matvælalöggjöf, eins og við höfum kallað þetta, þannig að við mundum verja hagsmuni íslensks landbúnaðar. Ég ætla að fullyrða að það hefur verið gert og unnið að því eins vel og kostur er og þar hafa mjög margir komið að málum.

Í fyrsta lagi var látið fara fram tiltekið mat, áhættumat, á þessum hlutum gagnvart íslenskum landbúnaði, þ.e. hvort t.d. það að flytja inn ferskar kjötvörur mundi raska samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar, íslenskrar kjötvinnslu. Niðurstaðan varð sú að svo væri ekki að því tilskildu að fylgt yrði mjög ströngum reglum þar að lútandi. Þetta vildi ég segja og árétta og vekja athygli á vegna þess að þetta skiptir miklu máli fyrir bakgrunn þeirrar umræðu sem farið hefur fram um þessi mál.

Við vitum að um þetta mál hafa verið skiptar skoðanir og ég ætla ekkert að draga neina dul á það og auðvitað er sjálfsagt að menn hafi ýmis sjónarmið uppi í þessum efnum. Ég hef líka sagt að sú löggjöf sem við erum að fara að setja er að mínu mati í meginatriðum grundvöllur að góðri matvælalöggjöf almennt fyrir Ísland. Ég hygg að það sé mjög margt í þessari löggjöf sem við hefðum tekið upp að okkar frumkvæði sjálfir þó svo að við værum ekki á neinn hátt skuldbundnir að alþjóðalögum vegna EES-samningsins að taka þessar reglur upp. Þær horfa einfaldlega til framtíðar og þær horfa til framfara og eru betri fyrir matvælaframleiðslu okkar, hvort sem um er að ræða kjötvinnslu eða fiskvinnslu. Þess vegna er það að mörgu leyti gott fyrirkomulag sem við erum hér að lögfesta. Síðan er það svo að vegna aðildar okkar að EES-samningnum erum við skuldbundin að þjóðarétti og það var sú niðurstaða sem menn komust að í kringum miðjan þennan áratug að við ættum engra annarra kosta völ og þá hófst þessi vinna sem ég hef þegar verið að rekja.

Til viðbótar við þetta erum við að taka yfir ákveðnar tilskipanir Evrópusambandsins, rétt eins og hv. 3. þm. Suðurk. rakti hér áðan og það er þá endalausa spurningin sem við stöndum alltaf frammi fyrir: Erum við kaþólskari en páfinn? Það er eitt af því sem við þurfum sem löggjafarþing stöðugt að hafa gætur á. Það er engin spurning að um það eru mörg dæmi úr fortíðinni að við höfum verið að lögtaka hluti og ganga miklu lengra en ýmsar aðrar þjóðir illu heilli. Að sumu leyti hafa þessi mál svo verið að koma niður á okkur með óæskilegum hætti eins og við þekkjum fjölmörg dæmi um. Það er því sjálfsagt fyrir okkur að fara mjög rækilega í gegnum það hvort við getum sveigt þessar tilskipanir betur að íslenskum raunveruleika en kannski orðanna hljóðan og hin bókstaflega þýðing felur í sér.

Dæmi um þetta er sá hluti löggjafarinnar sem snýr að dýralæknaþjónustu. Þar er hugmyndafræðin einföld. Þar er hugsunin sú að annars vegar höfum við eftirlit dýralækna af hálfu hins opinbera sem ekki mega búa við nein hagsmunatengsl. Þeir hafa þá bara það lögbundna hlutverk að fylgjast með, að vera eftirlitsaðilar, til að tryggja að allt þetta sem við erum hér að fjalla um fari sem best fram. Þetta finnst mönnum kannski almennt séð býsna skynsamleg nálgun en það þýðir þá það í raunveruleikanum að dýralæknar sem þannig háttar um hafa ekki heimild til þess að praktísera sem dýralæknar vegna þess að þar með eru þeir orðnir vanhæfir að mati reglna Evrópusambandsins til þess að vera eftirlitsaðilar því að þá eru þeir að hluta til orðnir eftirlitsaðilar með sjálfum sér.

Í besta heimi allra heima væri þetta kannski ákjósanlegt fyrirkomulag en nú vitum við að aðstæður okkar hér á Íslandi eru allt öðruvísi og við þurfum þess vegna að aðlaga okkar löggjöf að þessu. Ég fullyrði það að t.d. varðandi dýralæknamálin höfum við reynt að teygja okkur eins langt og við höfum talið okkur frekast mögulegt. Nákvæmlega sama er að segja varðandi til að mynda þau mál sem hv. 3. þm. Suðurk. vakti athygli á sem hann hefur vegna þekkingar sinnar verið að undirstrika mjög í starfi nefndarinnar. Það eru þessi valdmörk milli eftirlitsaðilanna og möguleika á því að framselja vald matvælastofnunar til annarra aðila, svo sem eins og matvælaeftirlits sveitarfélaganna og skyldra hluta. Það er allt saman skynsamlegt og gott og eðlilegt og ekkert undan því að kvarta og við eigum endilega að hafa þessar heimildir eins rúmar og eins opnar og mögulegt er.

Ég vil enn fremur nefna í þessu sambandi hinar svokölluðu skoðunarstofur sem hafa fyrst og fremst verið að starfa í sjávarútveginum en gætu eðlis síns vegna starfað miklu víðar að þessu leytinu, það eru svo sem skoðunarstofur í öðrum atvinnugreinum. Þar hafa vaknað spurningar um það hversu langt við getum gengið í því að halda því kerfi óbreyttu. Niðurstaðan hefur verið sú að ráðningarsambandið yrði að vera á milli þess sem er eftirlitsþolinn, eins og sagt er, þ.e. atvinnulífsins, og hins opinbera, þ.e. Matvælastofnunar í þessu tilviki. Það geti ekki verið ráðningarsamband beint við skoðunarstofurnar og þess vegna verði að gera þær breytingar sem við höfum verið að gera.

Við höfum hins vegar verið að opna, eins mikið og við höfum talið mögulegt, fyrir möguleikann á því að framselja síðan það vald til skoðunarstofanna eftir ákveðnum lögformlegum leiðum sem eru teiknaðar upp í frumvarpinu. Ég tel að það eigi að vera stefna hins opinbera að gera þessa samninga við skoðunarstofurnar þannig að við getum haft þetta fyrirkomulag líkt því sem verið hefur. Þetta er í rauninni áréttað mjög skýrt í áliti hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og um það var ágæt samstaða.

Við getum gengið býsna langt í þessum efnum og við þurfum ekkert að óttast viðbrögð Evrópusambandsins. Við vitum að niðurstaðan varð þessi vegna þess að pólitískur ágreiningur var um það í ríkisstjórninni, ákvörðunin varð því sú að horfa fram hjá því hvernig staðið væri að stórri spurningu varðandi innflutning á fersku kjöti o.s.frv. Þar vita allir að við vorum að skáskjóta okkur fram hjá þessum tilskipunum og reglum og það verður hið stóra álitamál sem mun koma upp í umræðunni þegar fram í sækir, eftir 18 mánuði þegar þetta mál allt verður að lögum, þegar landbúnaðarþátturinn tekur gildi. Í ljósi þess að við höfum einfaldlega tekið þessa pólitísku ákvörðun held ég að rök séu fyrir því að við göngum lengra en við hefðum kannski ella gert varðandi dýralæknana, varðandi skoðunarstofurnar, varðandi framsalið gagnvart sveitarfélögunum o.s.frv. og við eigum ekkert að hika við að gera það.

Hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur einmitt fylgt því að þarna sé þá í lagi fyrir okkur að ganga býsna langt. Það hefur verið gert og ég styð það eindregið. Ég tek síðan undir það með hv. 3. þm. Suðurk. að vissulega hefðum við í minni hlutanum, sem störfuðum í nefndinni, gjarnan viljað ganga enn lengra á ýmsum sviðum. Við unnum það hins vegar til þess að ná góðri samstöðu að fallast á þá málamiðlun sem boðuð hefur verið á þessum sviðum í frumvarpinu þó að við hefðum sannarlega kosið að ganga lengra.

Vinnubrögðin og vinnulagið í nefndinni, undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar, hv. 4. þm. Suðurk., hefur verið til fyrirmyndar og ég vil þakka honum það. Ég vil enn fremur, vegna þess að þessu máli er nú að ljúka og ég hef komið dálítið mikið að því, þakka öllum þeim sem komið hafa að málinu, líka núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þó að okkur hafi greint á í þessum efnum hefur samstarf okkar engu að síður verið ágætt og einnig samstarf nefndarinnar og ráðuneytisins að ekki sé talað um samstarfið við hagsmunaaðila. Ég fagna því að nú sé niðurstaða að nást, að við séum að ljúka þessu mikla máli.