138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. iðnn. (Anna Pála Sverrisdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík. Þetta er 89. mál þingsins á þskj. 487.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Orkustofnun, ríkisskattstjóra og Seðlabanka Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 51/2009. Á grundvelli þeirra laga var 7. ágúst sl. undirritaður fjárfestingarsamningur á milli ríkisstjórnar Íslands, Century Aluminum Company og Norðuráls Helguvík ehf. um byggingu og rekstur álvers í Helguvík.

Tilefni frumvarpsins eru athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um tvö atriði samningsins. Í lögunum er kveðið á um að samningurinn skuli eigi gilda skemur en í 20 ár frá því að framleiðsla hefst í álverinu. ESA benti á að samningur um veitingu ríkisaðstoðar megi ekki gilda lengur en í 20 ár og gerði athugasemd við að upphaf gildistíma hans væri miðað við það tímamark er framleiðsla hefst í álverinu. Er því mælt fyrir um breytt tímamark í ákvæðum frumvarpsins. Jafnframt eru í lögunum ívilnandi reglur fyrir Norðurál Helguvík ehf. um greiðslu stimpilgjalds bæði hvað varðar byggingu og rekstur álversins sem og endurfjármögnun.

Vegna athugasemda ESA er í frumvarpinu lagt til að heimildin verði þrengd á þann veg að frávik frá greiðslu stimpilgjalda verði eingöngu afmörkuð við skjöl sem eru gefin út í beinum tengslum við byggingu álversins en ekki rekstur þess, auk þess sem ákvæðið nær ekki til endurfjármögnunar.

Unnur Brá Konráðsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Arndís Soffía Sigurðardóttir og Tryggvi Þór Herbertsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifa sú sem hér stendur, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Arndís Soffía Sigurðardóttir, með fyrirvara, Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara, og Margrét Tryggvadóttir.