138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[12:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um breytingar á lögum um heimild til samninga um álver í Helguvík. Þetta nær til tveggja atriða eða er leiðrétting á tveimur atriðum sem voru umkvörtunarefni Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Annars vegar að samningarnir gildi ekki lengur en til 20 ára og að í samningunum verði skýrt kveðið á um að lán sem tekin eru tengist eingöngu byggingu álversins en ekki rekstri þess og þá ná samningarnir ekki til endurfjármögnunar eftir breytingu.

Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og það er af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi að málið fór með miklum hraða í gegn og hefði e.t.v. þarfnast meiri umræðu og meiri ígrundunar. En fyrst og fremst kannski vegna þess að það er náttúrlega óþolandi að verið sé að gera samninga við erlenda aðila um stór fjárfestingarverkefni og ráðuneytin skuli ekki hafa þekkingu á svona grundvallaratriði í heimildum á Evrópska efnahagssvæðinu varðandi ríkisstyrki og annað slíkt. Þetta er grundvallaratriði og kemur, eins og í mörgum málum, einhvern veginn til af því að málin virðast vera unnin af einhverri vankunnáttu af hálfu íslenskra aðila. Við höfum séð þetta margoft og stærsta og frægasta dæmi Íslandssögunnar verður eflaust hinn svokallaði Icesave-samningur.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt en með þeim fyrirvara sem ég hef nefnt hér.