138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[12:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég var andvígur þeim samningi sem hér er verið að flytja frumvarp til breytinga á þegar hann var afgreiddur á Alþingi í vor. Ég taldi þá og tel enn að í þeim samningi væri allt of langt gengið. Þetta frumvarp er auðvitað til marks um það en því miður er það staðreyndin að við sitjum uppi með þann samning og marga fleiri frá fyrri tíð þar sem menn voru óhemjurausnarlegir hvað varðar skattaleg fríðindi í þágu dótturfélaga erlendra stóriðjufyrirtækja sem aftur leiðir til þess að slík fyrirtæki munu búa við aðrar og hagstæðari skattareglur árum og áratugum saman en almennt íslenskt atvinnulíf. Slíku er auðvitað hart að sæta en samningarnir eru bindandi og erfitt að hrófla við þeim þegar þeir hafa einu sinni verið gerðir.

Sennilega hefur þó hvergi verið gengið jafnlangt og þegar samið var um járnblendiverksmiðju á Grundartanga á sínum tíma. Sá samningur er með þvílíkum endemum að ég þekki slíks eiginlega engin dæmi á byggðu bóli að um það sé samið án nokkurra tímamarka að tilteknar og mjög hagstæðar skattareglur skuli gilda um aldur og ævi óháð því hvernig skattalegum málum fyrirtækja og atvinnulífsins almennt er háttað. (TÞH: Prófaðu að semja við Norðmenn.) Við sjáum t.d. núna að þegar að því kemur loksins að tiltekin stóriðjufyrirtæki fari að greiða skatta munu þau verða varin fyrir öllum hækkunum tekjuskatts upp fyrir 15% eins og hefur verið í gildi á þessu ári og/eða 18% eins og var í gildi árin þar á undan.

Nú er það svo að það er vel réttlætanlegt og rökstyðjanlegt að veita tilteknum stórum og hagkvæmum fjárfestingarverkefnum stuðning á uppbyggingartíma og eftir atvikum einhver fyrstu starfsárin. Fyrir því geta verið bæði efnahagsleg og atvinnupólitísk rök. En því verður að afmarka tiltekinn tíma og það verða að standa einhver þjóðhagsleg rök fyrir því að slíkt sé réttlætanlegt og í því sé ekki fólgin óverjandi mismunun gagnvart öðru atvinnulífi, því að ef svo er væri sérstaklega verið að stuðla að þessari starfsemi á kostnað annarrar og þar með væru stjórnvöld með mismunun að hafa að mínu mati óæskileg og óverjanleg áhrif á það hvers konar atvinnulíf byggist upp í landinu.

Ég vil láta þessi orð koma hér fram, herra forseti, til að mín sjónarmið liggi fyrir í þeim efnum. Svo lengi sem þessi mál verða í mínum höndum verður breyting á og það verða ekki gerðir af hálfu fjármálaráðuneytisins skattasamningar á þeim grunni sem áður hafði verið gert heldur eingöngu þannig að um skýrt afmarkaðar og tímabundnar ívilnandi ráðstafanir sé að ræða og í framhaldinu taki við almennar skattareglur, þannig að þessi atvinnustarfsemi eins og önnur greiði að tilteknum aðlögunartíma liðnum skatta samkvæmt almennum reglum. Það er að mínu mati eina verjanlega aðferðafræðin í þessum efnum.

Nú er verið að reyna að koma þessum málum í betri farveg, fyrst og fremst þannig að reglur um þetta verði samræmdar og ekki þurfi að klæðskerasauma samninga utan um hvert einstakt verkefni sem kann að reka á okkar fjörur á næstu árum af þessu tagi, heldur liggi þá fyrir almennur rammi sem gildi jafnt um alla. Að sjálfsögðu verði hvergi gengið lengra en þær reglur leyfa sem okkur ber að fara eftir og við höfum skuldbundið okkur til að virða eins og í tilviki evrópskra reglna sem hér hafa rekist á.

Hjálpræðið kom í þessu máli að utan því að það var Eftirlitsstofnun EFTA, ESA sem gerði athugasemdir við samninginn og leiðir til þess að hann er nú lagaður umtalsvert. Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér eru til verulegra bóta, þær stytta ívilnunartímann um helming og taka á fleiri reglum þar sem gengið var of langt. Það er ekki á hverjum degi sem þingmenn Vinstri grænna og Eftirlitsstofnun ESA fallast í faðma en það hefur gerst í þessu máli og við erum þakklát stofnuninni fyrir að leiða öðrum það fyrir sjónir að við höfðum rétt fyrir okkur á Alþingi síðastliðið vor þegar við sögðum að þarna væri gengið allt of langt.

Auðvitað þarf að huga að mörgum fleiri þáttum í þessum efnum og ég tek tímans vegna umhverfismálin ekki inn í þetta sem auðvitað hafði líka áhrif á afstöðu okkar og hefur haft í þessu máli. Það þarf vissulega líka að huga að samkeppnishæfni landsins og við verðum að horfast í augu við að önnur lönd beita slíkum úrræðum ýmsum til að laða að sér starfsemi af þessum toga og öðrum. Við þurfum að samræma reglur okkar einnig að þessu leyti og það er verið að gera, t.d. með því að búa nýsköpunarstarfsemi hér á landi sambærileg og jafnhagstæð skilyrði og mörg önnur lönd með framsækinni hugsun hafa innleitt í sín skattalög með hvetjandi ákvæði í þeim efnum. Að því marki sem sátt er um og verður um að nýta okkar umhverfisvænu orku í þágu orkukrefjandi starfsemi mun hún að sjálfsögðu keppa við aðra sem bjóða, það er kannski ekki viðeigandi að segja gull og græna skóga í þessu samhengi heldur fremur sína orku fram og við erum að keppa við lönd eins og Kanada, Noreg eða hver þau nú eru eða önnur enn fjarlægari.

Að sjálfsögðu þarf einnig að hyggja að þeim þætti málsins og við munum ekki láta hann fram hjá okkur fara í vinnu við þessi mál en það má vera hverjum þeim ljóst sem hefur sett sig inn í þessi mál og skoðað hina gömlu samninga að þetta var í hinum megnasta ólestri hjá okkur og alls ekki sú almenna stefna fyrir hendi sem þarf auðvitað að styðjast við í málum af þessu tagi. Vonandi tekst okkur smátt og smátt að vinda ofan af því og færa þessa hluti til betri vegar en það mun vissulega taka sinn tíma vegna þess að í sumum tilvikum er lítið annað að gera en að leyfa gildandi fjárfestingarsamningum af þessu tagi að renna sitt skeið á enda.