138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[12:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var um margt ágætisræða og fín. Ég hef alltaf verið á móti svona undanþágum frá reglum sem hið almenna atvinnulíf þarf að sæta og vildi þess vegna spyrja hæstv. ráðherra — það er reyndar annað sem ég ætla líka að ræða, þ.e. kolefnisskatta og kolefniskvóta. Núna er fyrirséð að innan nokkurra ára munu menn taka upp kolefniskvóta á þau fyrirtæki sem valda mengun. Þá mun það gerast að íslensk orka sem er nánast mengunarlaus að því leyti mun verða miklu verðmeiri en önnur orka sem framleidd er með gasi og kolum eða brennslu jarðefna, t.d. í Kína eða annars staðar. Ég vil því spyrja: Hefur verið tekið mið af því í nýju samningunum við þessi álver að þau þurfi að borga sem nemur þessum kolefniskvótum ofan á orkuverðið?

Hæstv. ráðherra segir að stefnt sé að því að setja rammalög. Það mun náttúrlega hafa í för með sér að við höfum ekki lengur tök á því að stýra þessari fjárfestingu, en ég er ekki voðalega hrifinn af slíkri stýringu. Rammalög opna fyrir það að menn geti stofnað og reist álver nánast hvar sem er þegar komin eru almenn lög um þetta og gildir það jafnt um gagnaver. Ég ætla að spyrja að því hvort það sé ekki réttur skilningur.

Skattalög ríkisstjórnarinnar þrengja að áhættufé á margan mismunandi hátt, það er eins og ríkisstjórninni sé illa við áhættufé, en jafnframt er hún að kalla eftir því að áhættufé starfi t.d. í nýsköpunarfyrirtækjum. Er það ekki ákveðin mótsögn að vera með frumvörp um undanþágu fyrir nýsköpunarfyrirtæki og vera svo að refsa áhættufénu (Forseti hringir.) á öðrum stað?