138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[12:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil skora á hæstv. ráðherra að taka mið af kolefnissköttum í þeim samningum sem hann gerir við þessi fyrirtæki, þannig að opnað sé fyrir það að þegar þeir verða teknir upp innan ekki mjög langs tíma, ég held eftir tvö eða þrjú ár sem Evrópusambandið stefnir að því að taka upp svona gjöld, sé þó reiknað með því í þeim samningum sem gerðir verða, þannig að hækka megi raforkuverðið sem því nemur að þetta er hrein orka.

Ég býst við svari við þeim spurningum um að við erum núna að afgreiða lög frá Alþingi um að þrengja mikið að áhættufé. Það er eins og mörgum vinstri mönnum sé illa við áhættufé, ég hef grun um að þeim sé hreinlega illa við það, það sé ekki nein tilgáta. En stundum átta þeir sig á því að ágætt sé að hafa áhættufé eins og í nýsköpun til þess að búa til störf en þá búa þeir til ívilnanir. Þeir byrja sem sagt á því að þrengja að því og gera það illmögulegt að fara út í áhættufjármögnun en svo opna þeir dyr til að hleypa inn í vissa hluti, t.d. nýsköpun. Ég vil árétta spurninguna til hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé ákveðin mótsögn í þessu, að vera um leið að refsa.

Svo vildi ég líka spyrja hæstv. ráðherra. Nú hefur áhættufé orðið fyrir gífurlegum áföllum undanfarið. Er verið að vinna eitthvað í því að búa til traust aftur á þeim markaði? Ég hef grun um að öll þessi nýsköpunarverkefni verði tómt mengi ef traustið er ekki til. Hver ætti að kaupa hlutabréf í dag?