138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[12:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda á að í því orkugjaldi eða auðlindagjaldi sem nú er verið að ræða á þingi, og er held ég næsta mál á dagskrá, er verið að koma inn vísi að því að til þjóðarbúsins renni hluti þeirrar auðlindarentu eða þess arðs sem okkar umhverfisvæna orka gefur í formi sérstaks orkugjalds, að vísu er farið þar hóflega í málin. Kolefnisgjöldin taka visst mið af verðlagningu þessara hluta í Evrópu. Þar er sömuleiðis farið vægt í sakirnar því að þar er helmingur af heildarverði fyrir losun sem er fólgið í kolefnisgjaldinu sem nú kemur á jarðefnaeldsneyti.

Ég tel að stjórnvöld missi ekki forræði þessara mála úr höndum sínum eins og hv. þingmaður spurði um þó að menn móti almenna stefnu og hafi tiltekinn ramma fyrirliggjandi sem inn í hvern ganga sérstakir samningar ef um slíkt er að ræða. Það er meginhugsunin. Auk þess sem þarna er um leyfisskylda starfsemi að ræða þar sem stjórnvöld, bæði ríkisvald og sveitarfélög, geta haft að sjálfsögðu allt forræði og vald yfir því hvort slíkri starfsemi er hleypt af stað eða ekki.

Ég tel að ekki sé verið að gera það óhagstætt að fjárfesta á Íslandi. Ég tel að hið sanna sé að fjárfestingarumhverfi almennt á Íslandi er enn mjög hagstætt og með því hagstæðasta sem þekkist t.d. í Evrópu. Það er kannski helst Írland sem er sambærilegt við okkur hvað þetta varðar. Það er því algjör misskilningur hjá sjálfstæðismönnum að þar séu miklar hættur á ferð. Ef menn vilja hins vegar hafa hér eitthvert alveg endalaust og botnlaust bómullarumhverfi utan um þá hluti, sem gafst nú ekkert óskaplega vel satt best að segja, þá er það sjónarmið út af fyrir sig en ég deili því ekki. Að sjálfsögðu verða fjárfestingar að ganga hér inn í eðlilegt og sanngjarnt skattkerfi þar sem atvinnulíf og fjármagn leggur sitt af mörkum eins og aðrir tekjustofnar.

Er verið að vinna að því að skapa traust aftur á Íslandi sem landi og sem fjárfestingarkosti? Já, það er verið að leggja mikla vinnu í það. Alþingi getur lagt sitt af mörkum, (Forseti hringir.) m.a. með því að klára Icesave-málið.