138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. iðnn. (Anna Pála Sverrisdóttir) (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið legg ég til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt enda tel ég það til bóta á lögum sem nú þegar hafa verið samþykkt, þ.e. lögum um heimild til samninga um álver í Helguvík.

Hins vegar vil ég að það komi alveg skýrt fram að í fyrsta lagi sat ég ekki á þingi þegar það frumvarp var samþykkt og í öðru lagi vil ég að það komi mjög skýrt fram að ég er á móti því að byggt verði álver í Helguvík. Reyndar er ég yfir höfuð á móti frekari uppbyggingu mengandi áliðnaðar á Íslandi, bæði af efnahagslegum og umhverfislegum ástæðum. Efnahagslega séð tel ég það heimskulegt og veit að hv. þm. Pétur Blöndal deilir þeirri skoðun með mér að ekki eigi að leggja of þunga áherslu á uppbyggingu einnar atvinnugreinar. Um umhverfislega þáttinn held ég að þurfi ekki að hafa fleiri orð.