138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[12:59]
Horfa

Frsm. iðnn. (Anna Pála Sverrisdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki í þeim sértrúarsöfnuði sem telur að koltvíoxíðsmengun valdi ekki hlýnun jarðar, svo það sé á hreinu.

Hins vegar hefði verið frábært að geta átt orðastað við hv. þm. Pétur Blöndal þegar við ræddum um daginn um bandvitlausa þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um hina svokölluðu hagsmuni Íslands í loftslagsmálum, þar sem ég benti stjórnarandstöðunni á þá hugsanavillu sem felst í því að setja niður allan heimsins mengandi iðnað á Íslandi og nota okkar hreinu orku til að knýja þann iðnað. Þetta er hugsanavilla. Hvers vegna? Ef við gerum ráð fyrir að í heiminum sé ákveðið mikið af mengandi iðnaði og síðan ákveðið mikið af hreinum iðnaði, sem nota bene virkar ekki svoleiðis, þetta eru ekki fastar stærðir í atvinnusköpun í heiminum, vill þá hv. þingmaður hafa það þannig að við fáum allan mengandi iðnað hingað, notum okkar hreinu orku í hann og ætlumst svo til þess að hreinn iðnaður verði byggður upp annars staðar og knúinn með mengandi orku? Ég sé ekki hvernig þessi jafna á að ganga upp. Það sem ég vil að við gerum á Íslandi er að laða að okkur hreinan iðnað og byggja upp hreint atvinnulíf á grunni okkar hreinu orku og tel að sóknarfæri okkar í atvinnulífi liggi nákvæmlega þar. (Gripið fram í.)