138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[14:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og upplýsandi ræðu. Ég geri reyndar athugasemd við ákveðna fordóma hjá hv. þingmanni, um grillandi sjálfstæðismenn, ég held hann ætti nú kannski ekki að vera með slíkar alhæfingar. (Gripið fram í.) Burt séð frá því var þetta mjög athyglisverð umræða um það hvort þetta væru yfirleitt umhverfis- og auðlindaskattar. Segjum að þessi tillaga hans, um að taka málið af dagskrá, verði ekki samþykkt er hann þá til í að leggja fram breytingartillögu um að breyta nafni frumvarpsins. Það er mjög villandi að kalla þetta auðlindaskatta, svo að maður tali nú ekki um umhverfisskatta og kalla þetta jafnvel „eldsneytis- og orkuskatta“ í stað þess að kalla þetta umhverfis- og auðlindaskatta til þess að í umræðu annars staðar frá fari menn ekki að halda að búið sé að leggja skatta á auðlindir á Íslandi.