138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir einlægt svar og jafnframt fyrir frekari útfærslu á því hvernig á að hugsa auðlindaskatta.

Í framhaldi af ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan og því sem stendur í minnihlutaáliti 3. minni hluta þar sem nákvæmlega sama gagnrýni kemur fram og við höfum haft frammi, ég og hv. þm. Þór Saari, um að þetta sé ekki skattur á auðlindina heldur neysluskattur, langar mig að spyrja: Gæti hv. þingmaður hugsað sér að standa að breytingartillögum með sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum um að nafni frumvarpsins verði breytt og lagt til að það verði kallað frumvarp um eldsneytis- og orkuskatta, og þessum auðlindamisskilningi frumvarpssmiðanna verði einfaldlega eytt þannig? Eins og hv. þingmaður bendir á er oft flagð undir fögru skinni og auðlindaskattur á ekkert skylt við það sem hér fer fram, menn eru að skreyta sig með stolnum hugtökum til þess að geta haldið því fram að þeir séu extra grænir eða eitthvað slíkt þegar þeir eru extra rauðir.