138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um svokallaða umhverfis- og auðlindaskatta. Ég ætla að mæla fyrir áliti 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar, þ.e. áliti okkar framsóknarmanna í þessu skattamáli, sem er eitt fjölmargra mála er snerta breytingar á skattkerfinu sem verið er að knýja í gegn á Alþingi á örfáum dögum rétt fyrir áramótin.

Með frumvarpinu er lagt til að innheimtur verði skattur af sölu á raforku og heitu vatni auk skatts af tilgreindum flokkum á fljótandi jarðefnaeldsneyti. Tilgangurinn er að afla aukinna tekna fyrir ríkissjóð sem nemur 4,7 milljörðum kr.

Mig langar í fyrsta lagi að fara inn á skattlagningu á heitt vatn. Nú mun það fara að kosta að fara í heita sturtu og það fer að verða ákveðinn munaður … (ÞSa: Að grilla.) Það er erfitt að halda einbeitingu, frú forseti, þegar svona hvöss skot koma frá hv. þm. Þór Saari sem beinist reyndar ekki að framsóknarmönnum heldur að sjálfstæðismönnum ítrekað í þessari umræðu en þetta kryddar umræðuna.

Mig langar að ræða skattlagningu ríkisstjórnarinnar á heita vatnið. Þriðji minni hluti bendir á að með frumvarpinu er lögð til skattlagning frá öfugum enda. Hún ætti að vera næst auðlindinni, og væri það í anda stefnu Framsóknarflokksins. Ríkisstjórnin gæti rétt eins sett skatt á útseldan fisk í fiskbúðum í stað þess að innheimta auðlindaskatt af sjávarauðlindinni.

Kostnaðarsamt er að fara í eftirlit með þeirri framkvæmd sem lögð er til í frumvarpinu. Ríkisskattstjóri benti nefndinni á við meðferð málsins að allt eftirlit yrði erfiðara ef frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði að lögum. Um er að ræða fjölmargar lágar tölur vegna skattsins, margar sem yrðu á bilinu 40–50 kr. á hvern greiðanda í hverjum mánuði, mismunandi eftir notendum.

Við umfjöllun í nefndinni kom fram ábending frá ríkisskattstjóra um að umsýsla og skráarhald tengt fyrirhuguðum umhverfis- og auðlindasköttum ætti betur heima hjá Fjársýslu ríkisins og tekjubókhaldskerfi þess. Það mál er órætt milli stofnananna tveggja og alls óljóst hvort ráðist verður í kostnað hjá ríkisskattstjóra til að aðlaga kerfi þeirrar stofnunar rétt áður en verkefnin verða færð yfir til Fjársýslunnar með lagabreytingu frá Alþingi í lok janúar 2010 sem margt bendi til að geti orðið. Sýnir þetta dæmi í hnotskurn hvernig málsmeðferðin hefur verið til þessa varðandi skattkerfisbreytingarnar. Málin eru unnin í miklum flýti og undir pressu og bestu leiðir til að útfæra hugmyndirnar hafa ekki verið ræddar. Þá má spyrja hvernig eftirliti verði háttað þótt gera megi ráð fyrir að ríkisskattstjóri fari eftir sem áður með þann hluta.

Mig langar að ræða í framhaldi af þessu um skattlagningu á ferðaþjónustuna og sjávarútveginn. Atvinnulífið fer ekki varhluta af upptöku kolefnisgjalds og má þar helst nefna ferðaþjónustu, sjávarútveg og flutningastarfsemi. Áréttar 3. minni hluti að hlutfall olíukostnaðar af tekjum í sjávarútvegi hefur verið um 17% vegna ársins 2008 og verður nálægt 14% nú í ár en þetta hlutfall hefur verið á bilinu 8–10% fram til ársins 2004. Er hér því um mikinn kostnaðarauka að ræða fyrir sjávarútveginn. Enn fremur vill 3. minni hluti benda á að í Noregi eru nokkrar atvinnugreinar undanþegnar kolefnisgjaldinu, til að mynda fiskiskipaflotinn sem og samgöngur flugvéla og kaupskipa á milli landa.

Nái frumvarpið fram að ganga mun ferðaþjónustan verða fyrir miklum skakkaföllum enda munu hækkanirnar bitna á hópbifreiðafyrirtækjum sem setið hafa eftir án mótvægisaðgerða vegna fyrri hækkana og má ætla að um 222 millj. kr. kostnaðarauka sé að ræða fyrir allar hópbifreiðar á Íslandi nái frumvarp þetta fram að ganga sem og hækkanir á olíu- og bensíngjaldi samkvæmt frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Er þá ekki með talinn kostnaðarauki vegna hækkunar á bifreiðagjöldum og tryggingagjaldi. Að öllu töldu er um að ræða um 600 millj. kr. hækkun á ársgrundvelli gagnvart þessari atvinnugrein.

Það er álit 3. minni hluta að hlúa verði að hvoru tveggja sjávarútveginum og ferðaþjónustunni í því árferði sem hér ríkir enda afla þessir atvinnuvegir gjaldeyristekna og skapa störf um landið allt. Telur 3. minni hluti að hér sé um mikið hagsmunamál fyrir þjóðarbúið að ræða og fara verði varlega í auknar álögur þeirra greina sem hér um ræðir.

Næst langar mig að nefna hækkun á bensíni og olíu fyrir heimili landsins og kannski ekki síst þann skatt sem ég vil kalla landsbyggðarskatt.

Í I. kafla frumvarpsins er lagt til að gjald verði lagt á fljótandi jarðefnaeldsneyti, þ.e. gas- og dísilolíu, bensín, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu. Með upptöku þessa gjalds er áætlað að rúmlega 2,5 milljarðar kr. skili sér í ríkissjóð á hverju ári og hafi verðlagsáhrif sem nemur 0,07%.

Ljóst er að mati 3. minni hluta að skattlagning sem þessi mun koma þungt niður á heimili landsins sem nú þegar hafa þurft að þola gríðarlega tekjuskerðingu. Enn fremur má nefna að hvort tveggja olíu- og bensíngjald voru hækkuð fyrr á þessu ári og nú liggur jafnframt fyrir að hækka skuli þau gjöld enn frekar nái frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum fram að ganga. Samanlagt nema þessar hækkanir um 19 kr. á hvern lítra dísilolíu eða um 11,1% og 26,1 kr. á hvern lítra af bensíni eða um 15,5% á einu ári. Miðað við meðalnotkun bifreiða er um að ræða árlegar hækkanir upp á 38.000 kr. fyrir dísilbíl og 52.000 kr. fyrir bensínbíl. Jafnframt bendir 3. minni hluti á að þessar hækkanir skila sér út í vísitölu neysluverðs og hafa þar með áhrif á höfuðstóla verðtryggðra lána. Mun tilkoma þessa gjalds, ásamt öðrum álögum, auka mjög allan flutningskostnað sem án efa mun skila sér út í verðlag á landsbyggðinni og hafa hagsmunaaðilar jafnvel gengið svo langt og segja að hér sé um eins konar „samgönguskatt“ að ræða. Hafa verður í huga að oft verður fólk sem býr úti á landi að sækja atvinnu og þjónustu um langan veg.

Það er álit 3. minni hluta að þessar hækkanir komi illa við landsbyggðina og geti haft í för með sér ákveðna mismunun.

Mikið væri það gott, frú forseti, að þeir talsmenn, sérstaklega í röðum Vinstri grænna og Samfylkingar, sem hafa talað á undanförnum árum um nauðsyn þess að lækka flutningskostnað á landsbyggðina kæmu til þessarar umræðu. Hér eru ráðherrabekkirnir auðir og merkilegt til þess að vita að margir af þeim hæstv. ráðherrum sem hafa talað hvað mest um lækkun á flutningskostnaði skuli ekki vera við umræðuna því hér er akkúrat verið að hækka flutningskostnað á landsbyggðinni.

Næst langar mig að ræða aðeins um skattlagningu á raforku. Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að lagður verði skattur á sölu á raforku og heitu vatni, 0,12 kr. á hverja kílóvattstund af seldri raforku og 2,0% af smásöluverði á heitu vatni.

Líkt og með skattlagningu heita vatnsins bendir 3. minni hluti á að með frumvarpinu er lögð til skattlagning á raforku frá öfugum enda.

Um aðrar athugasemdir 3. minni hluta, svo sem um kostnað og eftirlit með framkvæmdinni, vísast til kaflans hér að framan um skattlagningu á heitu vatni.

Við hljótum hins vegar að velta því fyrir okkur, bæði með skattinn á raforkuna og heita vatnið, hvernig á m.a. að endurgreiða heimilum á köldum svæðum þær hækkanir sem að þessari breytingu snýr, sem þýðir að fjármunir koma inn til skattsins og fjármunir fara út frá skattinum og áhrifin eru núll. Verið er að auka flækjustigið hjá skattinum og auka kostnaðinn við það að reka skattkerfið. Það virðist vera nokkuð vinsælt hjá ríkisstjórninni að flækja skattkerfið eins mikið og hægt er. Af þeim umsögnum sem við höfum fengið og kostnaðarmati við þessi frumvörp ríkisstjórnarinnar verður það gríðarlegur kostnaður fyrir skattborgarana að standa undir svo flóknu skattkerfi. Mig langar að ræða það aðeins því verið er að flækja þetta kerfi. Með málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar er verið að gera kerfið kostnaðarsamara og óskilvirkara auk þess sem flækjustig eykst til muna. Ég vil nefna þar nokkur atriði. Þetta verður flóknari skattframkvæmd og aukið flækjustig í skattkerfinu sem eykur kostnað þeirra sem selja raforku og heitt vatn beint til notenda, bæði vegna auðlindaskattsins og virðisaukaskattsins. Kostnaður skattyfirvalda eykst vegna aukins eftirlits í ljósi flækjustigsins og ríkisskattstjóri hefur bent nefndinni á við meðferð málsins að allt eftirlit verður erfiðara ef frumvarp ríkisstjórnarinnar verður að lögum.

Dýrmætum tíma skattyfirvalda verður eytt í aukið eftirlit með framkvæmd og það kostar sitt. Eftirspurn í kerfinu gæti minnkað. Íslenskir neytendur eru mjög virkir og ljóst að eftirspurn er mjög næm fyrir verðbreytingum sem frumvarpið felur í sér. Frumvarpið mun hafa mjög neikvæð áhrif á atvinnustig, svo við nefnum ekki þann mikla kostnaðarauka fyrirtækjanna vegna þeirrar snörpu aðlögunar sem hér er mælt fyrir um. Fyrirtæki sem selja raforku og heitt vatn í landinu fá mjög skamman frest til að aðlaga tölvu- og bókhaldskerfi sín að þessum breytingum og það atriði málsins er óumdeilt, frú forseti.

Það er álit 3. minni hluta að hækkanir ríkisstjórnarinnar komi illa við ferðaþjónustuna, sjávarútveginn og landsbyggðina í heild og geti haft í för með sér mismunun. Hér er um mikið hagsmunamál fyrir þjóðarbúið að ræða og fara verður varlega í auknar álögur á þær greinar sem hér um ræðir.

Málsmeðferðin hefur verið slík að unnið er í miklum flýti og undir pressu og bestu leiðir til að útfæra hugmyndirnar hafa ekki verið ræddar. Að þessi sögðu er því rökrétt að leggja til og leggur 3. minni hluti það til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir þetta ritar Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi 17. desember árið 2009.

Það virðist vera samhljómur hjá þeim þremur aðilum sem hafa skilað inn nefndarálitum, þ.e. fulltrúum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Hreyfingar, að hér sé um vanreifað mál að ræða og í raun er um hrikalegt hugtakabrengl að ræða. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað um að fyrirsögn eða heiti frumvarpsins um umhverfis- og auðlindaskatt sé beinlínis villandi og verið sé að fara með einhvern fagurgala þannig að málið, sem er mjög slæmt í eðli sínu, líti eitthvað betur út. Hér er hreinlega verið að leggja til heilmiklar skattahækkanir á fyrirtæki og heimili, ekki síst á heimili á landsbyggðinni. Ég legg því til að málinu verði vísað til frekari umfjöllunar og vandað verði til verka í mun meiri mæli en hér hefur verið gert.

Ég vil minna á að í fyrsta frumvarpi um skattamálin sem við höfum afgreitt frá Alþingi og snertir nýsköpun lögðum við í minni hluta efnahags- og skattanefndar til breytingar á þeim frumvörpum. Og af því að ég hef ekki komið í ræðustól síðan sá atburður gerðist að breytingartillögur minni hlutans, sem voru mjög skynsamlegar, voru samþykktar þá á ég alveg eins von á því að með þeirri breytingartillögu sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur nefnt um að breyta heiti frumvarpsins, sem er rökrétt vegna þess að heiti frumvarpsins er villandi, muni minni hlutinn ná þeim breytingum í gegn vegna þess að ekki er verið að fara rétt með þegar kemur að fyrirsögn frumvarpsins.

Annars vil ég þakka fyrir gott samstarf í nefndinni, hv. formanni Helga Hjörvar fyrir samstarf undir mjög erfiðum kringumstæðum. Við fengum málið mjög seint inn sem er alls óviðunandi, 14 virkum dögum fyrir áramót átti að afgreiða fjölmargar breytingar á skattkerfinu. Við höfum þurft að funda frá morgni til kvölds og mikið álag hefur verið á starfsfólki nefndarinnar sem ég vil líka þakka fyrir mjög góð störf. Því miður hefur okkur ekki unnist tími til að afgreiða málið með þeim hætti að Alþingi Íslendinga sé sómi að og hvað þá heimilunum í landinu. Það er þess vegna sem mér heyrist að samhljómur sé um það hjá þremur stjórnmálaflokkum á Alþingi Íslendinga að málið sé vanreifað, vinna þurfi það betur og þess vegna ber Alþingi að vísa því aftur til ríkisstjórnar til frekar meðhöndlunar.