138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Já, það var sem mig grunaði, að hv. þingmaður sæi það sama og ég, að hér sjást Vinstri grænir ekki neitt í þessu máli. Kannski er ástæðan fyrir því að þeir sjást ekki sú að þeir skammast sín einfaldlega fyrir frumvarpið eins og hv. þingmaður benti á og rökstuddi svo ágætlega, til að mynda með tilvísun (BJJ: Lilja er mætt.) til ferðaþjónustunnar. Ég sé að þingmaður Vinstri grænna er mættur í salinn, hv. þingmaður … (ÁJ: Með uppbrettar ermar.) ja hérna, þannig að við getum glaðst yfir því að hér fáum við þingmann frá Vinstri grænum sem mun tala af hugsjón, tala af eldmóð, tala af sannfæringu um þetta hjartans mál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þau markmið sem hún var mynduð um. Væntanlega má ég eiga von á því að hv. þingmaður sýni okkur, hv. þingmönnum hér, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er ekki melóna sem er græn að utan en rauð að innan.