138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil hnykkja á því sem ég hef sagt hér um þær afleiðingar sem þessar skattbreytingar munu hafa á ferðaþjónustuna en um leið tek ég undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni og fagna því að hv. þm. Lilja Mósesdóttir skuli vera komin til umræðunnar fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég man þá tíð að Vinstri grænir létu ekkert mál fara í gegnum Alþingi þegar þeir voru í stjórnarandstöðu án þess að a.m.k. 2–3 þingmenn í þeim flokki töluðu um hvert mál við 1., 2. og 3. umr. Það var meira að segja á meðan þingmenn Vinstri grænna voru fimm. Þessi eldmóður og elja í hv. þingmönnum Vinstri grænna á þeim tíma vakti aðdáun mína. Þetta hefur verulega breyst núna eftir að flokkurinn komst í ríkisstjórn og nú heyrir það til tíðinda ef þingmenn Vinstri grænna tjá sig um mikilsverð mál.

Ég hvet hv. þm. Lilju Mósesdóttur til að færa þau skilaboð inn í þingflokk Vinstri grænna að koma aftur með sama eldmóðinn, tjá sig um mál og vera með skýra stefnu og afstöðu í mikilvægum málum, en það er náttúrlega mjög erfitt fyrir — (PHB: Sannfæringu.) og sannfæringuna. En það er náttúrlega mjög erfitt fyrir flokk eins og Vinstri græna sem er búinn að samþykkja svo mörg mál að undanförnu þvert gegn eigin stefnu að koma upp í ræðustól Alþingis og tala fyrir slíkum málum af eldmóði og sannfæringu og það skýrir kannski af hverju Vinstri grænir skila auðu í svo mörgum umræðum. Öðruvísi mér áður brá þar sem hér er um einn málglaðasta flokk að ræða í sögu lýðveldisins á Alþingi, en hann virðist því miður í dag lítið láta að sér kveða í umræðunni. Satt að segja er ég farinn að sakna þess því að oftar en ekki komu fram (Forseti hringir.) mjög sérstök sjónarmið og skemmtilegar athugasemdir frá hv. þingmönnum Vinstri grænna.