138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Kostnaðurinn vegna þessara umfangsmiklu breytinga snertir mörg svið allra þessara skattbreytinga og mig minnir að breytingar á hugbúnaði tengt þessu kerfi hafi verið áætlaðar einar 5 millj. kr. Síðan verður náttúrlega aukinn kostnaður í rekstri kerfisins vegna þess að — nú sé ég að hæstv. fjármálaráðherra er mættur í salinn. (Fjmrh.: Farðu nú að hætta þessu.) Hæstv. ráðherra biður mig um að hætta að tala, ég ætla ekki að verða við því. Ég er að spá í að reyna að svara því andsvari sem hér hefur verið beint til mín.

Fyrir utan allan þennan kostnaðarauka sem hlýst af rekstri þessa kerfis sem verður dýrara langar mig líka til að benda hv. þingmanni á að litlar hitaveitur á landsbyggðinni munu borga mun hærri skatt en stærri veitur sem eru til að mynda á suðvesturhorni landsins. Þar er enn einn landsbyggðarskatturinn lagður á og það er hárrétt sem hv. þingmaður benti á er snertir samgöngur á landsbyggðinni, bílar eru oft fætur fólks þar vegna þess að vegalengdirnar eru svo gríðarlega miklar að það er lífsspursmál fyrir fólk að hafa aðgengi að einkabílnum. Það eru ekki almenningssamgöngur á landsbyggðinni og þess vegna eru þessar hækkanir og álögur á olíu og bensín gríðarlegt áfall fyrir landsbyggðina og munu leiða til hærri flutningskostnaðar. Hvað þýðir það? Hærra vöruverð á landsbyggðinni á meðan menn glíma við það að skuldirnar hafa hækkað og tekjurnar lækkað.

Ég bendi hæstv. fjármálaráðherra á að við höfum rökstutt það mjög ítarlega í þessari umræðu að það eru full efni til að vísa þessu vanreifaða máli aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu.