138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er mjög athyglisvert sem hann kemur inn á, það sem hann kallar landsbyggðarskatt, og færir margvísleg og góð rök fyrir því hvaða áhrif það muni hafa, hvort heldur sem eru flutningar eða sett á hitaveiturnar miðað við gjaldskrána frekar en að taka mið af því hvað er hagkvæmt. Auðvitað er hún mun ódýrari á suðvesturhorninu og magnið gerir það að verkum að taxtinn er miklu lægri hjá þessum stóru hitaveitum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hann á sæti í hv. efnahags- og skattanefnd: Var eitthvað reynt að meta hvað þetta hefði mikinn mismun úti á landsbyggðinni miðað við Reykjavíkursvæðið? Fóru menn eitthvað efnislega yfir það? Ég geri mér grein fyrir að þetta er dálítið kröfuhörð spurning vegna þess að málið er í sjálfu sér illa unnið eins og flest annað sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn. Þeir hafa einungis talað um þetta í nokkra daga á hlaupum. Eins spyr ég hv. þingmann um annað sem hann kom ekki inn á í svari sínu. Það hafa komið ítrekaðar spurningar um þær umræður sem áttu sér stað í efnahags- og skattanefnd þegar gert var ráð fyrir að þetta væru 30,8 millj. kr. í kostnaðarauka fyrir íbúa á köldum svæðum. Var sú umræða með þeim hætti að það yrði þá leiðrétt hjá þeim íbúum ef það kemur í ljós að kostnaðurinn verði meiri?

Bara til að árétta það, virðulegi forseti, kostar núna íbúa í dreifbýli 336% meira að kynda húsin sín en íbúa á höfuðborgarsvæðinu, 336% dýrara að kynda íbúðarhúsnæði úti á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Það er búið að hækka rafmagnsverð á þessu ári um 20%. Samt sem áður leggur hæstv. ríkisstjórn til að niðurgreiðslur á rafmagni verði skornar niður um 130 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu. Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Finnst honum þetta vera í samræmi við málflutning margra fyrrum hv. þingmanna sem eru nú orðnir hæstv. ráðherrar? Eru þeir samkvæmir sjálfum sér í þessum málflutningi eftir að þeir settust í ríkisstjórn og er búið að fenna yfir sporin og orð þeirra áður fyrr?