138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar menn koma hér í ræðustólinn, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og hafa öll ónefni sem þeim til hugar koma um aðgerðir af þessu tagi, tala um valdníðslu, heimsku, árás, aðför, hvað það er, þá leyfi ég mér bara að minna á að það er ekki að ástæðulausu sem þarf að grípa til þeirra viðamiklu ráðstafana sem hér er verið að grípa til, m.a. á sviði tekjuöflunar fyrir ríkið. Já, það er rétt, í þessu er fólgin tekjuöflun fyrir ríkið, en um leið eru hér innleiddir umhverfisskattar. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmenn að horfa fram hjá því, kolefnisgjöld, losunargjöld eru að sjálfsögðu umhverfisskattar og ekkert annað.

Hvað er nú orðið um umhverfisvitund Sjálfstæðisflokksins sem varð til í nokkrar vikur fyrir kosningar 2007 (Gripið fram í.) þegar meira að segja fálkinn varð grænn á forsíðu Morgunblaðsins? Það er eitthvað orðið gleymt frá þeim tíma.