138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet hv. þingmann einfaldlega til að kynna sér málið betur. Það er algjörlega rækilega útskýrt í forsendum þess hvernig þetta er og þetta er nákvæmlega það sem það er sagt vera. Kolefnisgjaldið er andlag skattlagningarinnar, þar er kolefnisinnihald orkugjafanna og það er mismunandi og þess vegna kemur það út í mismunandi verðum þar sem bensín er hækkað minnst, dísilolían meira og svartolían mest af því að kolefnisinnihaldið er meira í þessum orkugjöfum og losunin á lítra er meiri. Það er í þessu samhengi af því að gjaldið er það sem það er sagt vera og nákvæmlega það. Svo hafa menn oft rætt um að hvort dísilolía sé umhverfisvænni í það heila tekið vegna þess að dísilhreyflar séu sparneytnari o.s.frv. Það var tvímælalaust svo á meðan blý var í bensíni. Það eru kannski minni augljós rök fyrir því að þar sé munur á þegar svo er komið að blý er horfið úr bensíninu og vegna þess að kolefnisinnihald í bensíni er þrátt fyrir allt aðeins minna en í dísilolíu.