138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[16:02]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í því frumvarpi sem við ræðum hér er talað um nokkra nýbreytni sem felist í því að um sé að ræða svokallaða auðlindaskatta eða auðlindagjald sem, að slepptu því gjaldi sem þegar hefur verið lagt á sjávarútveginn, sé nokkuð sögulegt þar sem þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt er gert hér á landi. Þá er þar til að taka að mínu mati að þarna gætir nokkurs misskilnings og mátti mjög glöggt heyra það á ræðu hæstv. fjármálaráðherra áðan að það virðist vera nokkuð á reiki innan fjármálaráðuneytisins og innan þeirrar nefndar sem um málið fjallaði og í hópi þeirra þingmanna sem virðast standa að málinu að líta svo á að hér sé um að ræða auðlindagjald.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að sökum þess hvernig gjaldið er lagt á er útilokað, frú forseti, að halda því fram að um sérstakt auðlindagjald sé að ræða. Hér er einvörðungu um að ræða hefðbundna skattlagningu á vöru sem leggst beint á kaupanda vörunnar. Sá sem kaupir heita vatnið borgar þennan skatt. Auðlindagjald, auðlindaskattur leggst á þann sem nýtir auðlind og er þá sérstaklega horft til auðlindar í opinberri eigu og einstaklingur eða fyrirtæki í eigu einstaklinga hafi fengið réttindi til að nýta auðlindina og þar með sé hún skattlögð á þeim grunni og það er þá sá sem nýtir auðlindina sem ber skattinn. Hér er málum ekki þannig farið. Þess vegna er það enginn útúrsnúningur, frú forseti, eða verið að drepa umræðu á dreif þegar menn segja að nafn frumvarpsins, fyrirsögnin sé röng og afvegaleiðandi. Verið er að vekja hughrif og reyna að halda því fram að þessi skattur sé annars eðlis en venjulegir skattar á almenning vegna þess að hér sé um að ræða sérstakan auðlindaskatt. Auðlindaskattar enn og aftur falla á þá sem nýta auðlindina, ekki á almenning með þessum hætti. Allt öðru máli gegndi ef skattur hefði verið settur á þá sem nýta auðlindirnar, þá sem dreifa heitu eða köldu vatni eða rafmagni, ef sú skattlagning hefði farið beint á þau fyrirtæki hefði verið hægt að tala um einhvers konar auðlindagjald. Reyndar er um slíkt að ræða þegar einkafyrirtæki fær að leigja af ríkinu t.d. heitan hver eða einhverja aðra orkulind til ákveðins langs tíma og greiðir þess í stað ákveðið leigugjald. Þá er með sanni hægt að segja að um sé að ræða einhvers konar auðlindagjald. Þessi hugsun byggir á því, almennt hugmyndin um auðlindagjöld byggir á því að það sé einhvers konar umframrenta sem um sé að ræða með nýtingu náttúruauðlinda. Má rekja þessar hugmyndir um umframrentu m.a. til hugmyndafræði sem kölluð er georgismi sem einmitt gengur út á það að þegar um er að ræða umframrentu sé eðlilegt að sú umframrenta renni til ríkisins. Það sé með öðrum orðum óeðlilegt að einstaklingur fái notið umframrentunnar, einstaklingurinn eða fyrirtæki í hans eigu eigi að geta haft eðlilega ávöxtun á sínu fé sem lagt er í ákveðna auðlind en það sem er umfram eigi að renna til almannaþarfa og notkunar.

Vandinn við þessa hugmynd er auðvitað sá, hvernig í ósköpunum eiga menn að finna það út hver er umframrentan, hver er hin eðlilega renta, hvað er renta sem á rætur sínar að rekja til þess að tækniþróun og hugmyndir þess sem nýtir auðlindina hafi skilað meiri afköstum, meiri hagnaði af auðlindinni, og því hafa menn almennt fallið frá slíkum hugmyndum að hægt sé að finna einhvers konar umframrentu. Reyndar áttu þessar hugmyndir sér nokkurt blómaskeið á Íslandi í umræðu um fiskveiðistjórnina þar sem fram kom sú hugmynd að hægt væri að setja ákveðið gjald á fiskveiðar til að tryggja að auðlindin yrði rétt nýtt. Var þá m.a. horft til hugmynda sem kenndar eru við georgismann um það að hægt væri að finna rétt gjald sem hægt væri að leggja á fiskveiðarnar til að tilkostnaður við fiskveiðarnar yrði ekki of mikill. Þetta hafa menn eins og ég segi gefist upp við meira og minna, þannig að það að stýra notkun auðlinda með auðlindagjöldum er eitthvað sem ég held að menn hljóti að vera komnir að niðurstöðu um að sé vart hægt.

Það skiptir þó máli, frú forseti, og það var rangt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, að kalla hlutina sínum réttu nöfnum, reyna ekki að blekkja bæði hv. alþingismenn og almenning með því að láta sem svo að hér sé verið að setja á auðlindagjald. Svo er ekki.

Hvað varðar umhverfisskattana sem settir eru vegna útblásturs á koltvísýringinn, þá er ég í sjálfu sér þeirrar skoðunar að það megi vel og eigi að skoða slíka skattlagningu og þá í stað annarrar skattlagningar. Með öðrum orðum, að eigi létta af öðrum gjöldum og setja skatt á mengun, því að vel má rökstyðja að það sé nauðsynlegt þar sem um er að ræða aðstæður þar sem engum eignarrétti verður komið við, t.d. eins og andrúmsloftið, og þá verði að koma til einhvers konar löggjöf af hálfu ríkisins til að menn borgi fyrir þá mengun sem þeir valda. Þar með ýtum við markaðnum í það að finna upp nýja tækni sem mengar minna, er ódýrari og að lokum mun auðvitað fara þannig, eins og t.d. er með bílana að þeir muni menga minna og minna eftir því sem tímar liða og að lokum munum við sjá á markaðnum bíla sem menga ekki neitt. Og þannig mun það ganga fram ef menn eru skynsamir einmitt í því hvernig farið er með slíka skattheimtu. Ef menn fara of hratt eyðileggja þeir líka um leið atvinnugreinar eins og bílaiðnaðinn ef settir eru of miklir skattar og það dregur úr getu slíkra iðngreina til að finna upp nýja tækni sem síðan nýtist okkur. En í prinsippinu, frú forseti, er ég ekki á móti slíkri skattheimtu en tel þó að hún verði að koma í stað annarrar skattheimtu, hún eigi ekki að leggjast ofan á eins og hér er um að ræða.

Síðan er hitt og það hefur verið farið yfir það býsna ítarlega á undan að sú skattheimta sem hér um ræðir hefur auðvitað mjög óæskilegar afleiðingar inn í hagkerfi okkar. Hærri skattar á olíu og bensín þýða það auðvitað að t.d. flutningskostnaður hækkar. Það er óumflýjanlegt, frú forseti, nema menn hafi einhverja leið til að flytja vöru án þess að nota bensín og olíu. Það þýðir t.d. fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni að staða þess rekstrar sem þar er verður erfiðari af því að aðföng sem þarf að flytja til fólks úti á landi verða dýrari og það verður dýrara að koma vörunni frá sér. Þetta er augljóst, frú forseti, og þetta tengist síðan saman við það sem við sjálfstæðismenn höfum verið að vara við að við þær aðstæður þar sem hefur orðið svona gríðarlegur samdráttur í hagkerfinu vegna þess að bankakerfið hrundi og við þær aðstæður þar sem hefur orðið svo mikill samdráttur vegna þess að við erum að draga saman í útgjöldum ríkisins, er mjög óskynsamlegt að hækka skatta. Af hverju er það óskynsamlegt? Vegna þess að það bætist ofan á þá útgjaldaaukningu sem verður hjá íslenskum heimilum (Gripið fram í.) vegna þess að lánin okkar hafa verið að hækka. Með öðrum orðum, það eru færri krónur eftir til þess að kaupa vöru og þjónustu, og þetta frumvarp, frú forseti, með því að við þurfum að borga meira fyrir heita vatnið og fyrir olíu og bensín, bætir ofan á þær álögur sem sannarlega hafa dunið á íslenskum heimilum.

Þá kemur upp umræða sem ég vakti athygli á í morgun, frú forseti, þar sem spurt var: Hvaða leiðir fara þjóðir og ríki til að reyna að koma aftur af stað efnahagskerfum sínum ef þau hafa orðið fyrir áfalli eins og við höfum lent í? Þetta hefur verið skoðað mjög ítarlega á undanförnum árum enda skiptir þetta miklu máli. Ég benti á í máli mínu í morgun, í umræðu um störf þingsins, að í rannsókn sem náði til 21 lands innan OECD þar sem skoðuð voru 90 tilvik þar sem ríkisstjórnir höfðu reynt með aðgerðum í fjármálum hins opinbera að ýta undir hagvöxt í ríkjum sínum, var aðgerðum skipt í tvennt: Annars vegar þar sem menn hafa lækkað skatta og hins vegar þar sem menn hafa aukið ríkisútgjöld. Niðurstaða þessarar rannsóknar, sem var gerð af prófessorum í hagfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, sýnir að með því að lækka skatta var miklu líklegra að menn næðu árangri í því að koma aftur af stað efnahagslífi viðkomandi þjóðar. Þar sem um var að ræða aukningu á ríkisútgjöldum gekk það miklu verr þegar upp var staðið, þegar menn horfðu til baka og höfðu nokkur ár til að mæla. Það skýrist m.a. af því að skattahækkanir og aukning í ríkisútgjöldum veldur því að fjárfesting einkaaðila dregst saman. Fjárfesting einkaaðila er mjög mikilvæg til að búa til ný störf og er grundvöllur fyrir hagvöxt í framtíðinni. Þetta eigum við að hafa í huga þegar við ræðum þetta frumvarp.

Ég hef heyrt þeirri skoðun fleygt, frú forseti, að vegna þess að skattar voru hækkaðir í Svíþjóð á 10. áratugnum þegar Svíar voru að vinna sig út úr sínum vanda, sé í lagi fyrir okkur að gera slíkt líka vegna þess að hér hafi skattar verið lækkaðir á undanförnum árum. Ég verð að segja, frú forseti, að þessi skilningur er rangur. Hann er rangur vegna þess að á Íslandi, eins og ég hef bent á, hefur líka fleira gengið á en bara það að við höfum orðið fyrir áfallinu sem fylgdi í bankahruninu. Hér varð líka hrun á gjaldmiðli, hér varð hrun á íslensku krónunni sem þýðir að heimilin verða fyrir alveg gríðarlegum búsifjum, bæði vegna þess að þeir sem voru með gjaldeyrislán þurfa nú að borga miklu meira, allt að því helmingi meira í afborganir en áður, og líka vegna þess að í kjölfarið fylgdi verðbólga sem þýddi það að lán sem eru verðtryggð hafa verið að hækka. Þegar menn taka þetta saman sjá þeir auðvitað að þetta er hættulegt. Og þó að skattar hafi verið lækkaðir er það ekki það sem skiptir máli þegar við metum hvaða afstöðu við eigum að hafa í þessum málum. Ástæðan fyrir því að ég segi það er sú að það sem skiptir máli eru áhrifin sjálf af skattahækkunum við núverandi aðstæður. Það skiptir máli og með því núna við þessar aðstæður að draga úr kaupgetu heimilanna á Íslandi, með því að gera það að verkum að færri krónur eru eftir í launaumslaginu til að kaupa vöru og þjónustu, erum við að sjálfsögðu og augljóslega að draga úr möguleikum okkar til að vinna okkur út úr efnahagskreppunni. Með öðrum orðum, frú forseti, við erum bæði að lengja kreppuna og við erum að dýpka hana.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram ítarlega útfærðar og útreiknaðar hugmyndir um það hvernig hægt er að bjarga vanda ríkissjóðs án þess að þurfa að grípa til skattahækkana. Við bendum á það enn og aftur að það sé svo mikil hætta fólgin í því að hækka skatta við þessar aðstæður að leita eigi allra mögulegra leiða, frú forseti, til að komast hjá því að hækka skatta. Það er sorglegt að fylgjast með þeirri umræðu sem hér hefur orðið um meðal annars þá leið okkar sjálfstæðismanna. Og þeir sem hafa, hv. þingmenn margir hverjir, talað hátt um það að nú væru komnir nýir tímar sem kölluðu á það að menn nálguðust viðfangsefni sitt með öðrum hætti en verið hefur og lyftu sér upp úr skotgröfum hinna pólitísku flokka, ættu að velta því fyrir sér þegar þeir horfa þá stöðu sem við Íslendingar erum í, hvort það væri ekki tilefni til þess að líta aðeins betur á þessi mál og spyrja sig: Er alveg öruggt að við neyðumst til að fara þessa skattahækkunarleið? Getum við farið aðra leið? Vegna þess að ef sú leið er fær, eins og við sjálfstæðismenn teljum, á að fara hana burt séð frá því hver lagði hana til, af því að það er gríðarleg áhætta fólgin í þeim fyrirætlunum sem ríkisstjórnin hyggst núna leggja fyrir þingið. Það er gríðarleg áhætta fólgin í þessu.

Rétt er að muna, frú forseti, að það sem gerðist í Bandaríkjunum, svo ég víki enn einu sinni að því, var það að kreppan sem varð vegna hrunsins 1929 varð ekki kölluð kreppan mikla nema fyrir það hvernig stjórnvöld í Bandaríkjunum brugðust við. Það voru bandarísk stjórnvöld sem gerðu kreppuna sem varð vegna hrunsins 1929 að kreppunni miklu. Hættan sem við stöndum frammi fyrir með því að þessi skattaleið ríkisstjórnarinnar verði samþykkt við þessar aðstæður, hættan sem við búum við er sú að við aukum á kreppuna og gerum hana að okkar miklu kreppu. Því er það verkefni Alþingis að reyna að finna allar mögulegar leiðir til að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Þegar ég heyri stundum talað um að nauðsynlegt sé að hækka skatta núna vegna þess að menn ætli sér að ná einhvers konar félagslegum markmiðum með því, þá segi ég: Gott og vel. Ég ætla ekki að gera ágreining um það að menn hafi mismunandi pólitískar skoðanir á því hvernig skattkerfið eigi að vera uppbyggt. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera einfalt og auðskiljanlegt og það skili mestum árangri að hafa skatta sem lægsta, það skili mestum tekjum í ríkissjóð. En gott og vel. Ef menn hafa þá skoðun að það þurfi að gera slíkt, að það þurfi að stokka upp skattkerfið og gerbreyta því, hvers vegna fara menn ekki þá leið að segja: Við skulum fara þá leið sem t.d. Sjálfstæðisflokkurinn hefur bent á hér og nota þær skatttekjur sem við eigum frestaðar inni í séreignarsjóðunum sem skipta tugum milljarða. Ætli ríkissjóður fengi ekki í sinn hlut 75 milljarða eða svo sem þar liggja inni, sveitarfélögin fengju miklar upphæðir. Fara þá leið sem við höfum bent á, að standa við stöðugleikasamkomulagið sem gert var við aðila vinnumarkaðarins þegar kemur að fjárfestingum, fara þá leið að skoða möguleika sem við höfum með því að auka þannig við aflann á Íslandsmiðum að við setjum fiskstofnana ekki í neina hættu en aukum tekjur ríkissjóðs og samfélagsins. Fara þá leið sem við höfum reiknað út og sýnt fram á að þær tekjur sem slíku mundi fylgja, framkvæmdir í Helguvík, Straumsvík o.s.frv., mundu tryggja okkur í gegnum þann vanda sem er fram undan með ríkissjóðinn og nota þá tímann til að fara yfir skattkerfið okkar íslenska, ef menn hafa þá pólitísku skoðun að menn vilji breyta því, og undirbyggja slíkar breytingar og gera það almennilega á 1–2 árum en hlaupa ekki eins og hér er gert að óathuguðu máli.

Mér finnst það, frú forseti, algerlega lýsandi fyrir þetta mál að hæstv. fjármálaráðherra skuli, þrátt fyrir að útskýrt sé fyrir hæstv. ráðherra nákvæmlega í hverju villan felst í heiti frumvarpsins, telja sig vera að leggja á auðlindaskatt sem síðan er auðvitað alveg augljóslega rangt, það er merki um þau vinnubrögð sem eru uppi í skattamálunum. Menn hlaupa í þessar skattbreytingar án þess að vita hvað þeir eru að gera. Ég ætla ekki að segja að það breyti öllu um niðurstöðu málsins hvað varðar skattlagninguna en það er alveg ótrúlegt að hlusta á það að menn skuli ekki skilja jafneinfalt grundvallaratriði eins og það hvað er auðlindaskattur og í hverju slík skattheimta felst.

Og síðan er það, eins og bent hefur verið á m.a. af hv. þm. Pétri H. Blöndal, hvernig skattlagning á sér stað varðandi heita vatnið auðvitað svolítið sérkennilegt og ber þess ekki vott að menn hafi hugsað þetta frá grunni og gefið sér nægan tíma til að velta þessu fyrir sér og hvaða áhrif þetta hefur. Það er alveg augljóst í mínum huga. Það getur varla verið að menn hafi ætlað sér að fara af stað með þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir.

Þess vegna segi ég, frú forseti: Það er hlutverk stjórnarandstöðu við þær aðstæður sem eru uppi í okkar samfélagi að leggja fram ábyggilegar og traustar og trúverðugar tillögur. Það er ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar núna að gagnrýna bara og finna að. Hlutverk okkar er að veita málefnalegt aðhald en um leið að leggja fram tillögur að lausn. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram tillögur sem gera það að verkum að ríkisstjórnin á núna möguleika, hún á til þess forskrift hvernig hægt er að leysa vanda ríkissjóðs án þess að fara í þessar stórhættulegu tillögur um skattahækkanir sem munu gera það að verkum að öðru óbreyttu að áhættan á því að kreppan sem við nú erum í verði lengri og dýpri, verði miklu meiri. Áhættan mun vaxa mjög mikið, það er óumflýjanlegt.

Við hljótum að gera þá kröfu, frú forseti, til okkar allra í salnum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að við tökum höndum saman um að finna bestu leiðina sem við eigum til að vinna okkur út úr þessari kreppu. Það er engin minnkun fólgin í því fyrir ríkisstjórnina, frú forseti, að taka þær tillögur sem koma frá stjórnarandstöðunni og skoða þær, vinna þær og segja: Ef þær ganga upp, förum við þessa leið. Hví ekki að taka þær frestuðu skatttekjur sem við eigum inni í séreignarsparnaðinum án þess að hreyfa neitt við stóra lífeyrissjóðakerfinu og þeirri samtryggingu sem þar er, með því að fara og líta á séreignarsjóðina og segja, þarna liggja tugir milljarða, yfir 70 milljarðar sem ríkið getur nýtt sér? Hví ekki að fara þá leið, frú forseti, frekar en það að ráðast í vanhugsaðar skattahækkanir sem geta haft svona alvarlegar afleiðingar? Því að hvergi í þeim rannsóknum, a.m.k. sem ég hef séð, hafa menn reynt það af mikilli alvöru við aðstæður eins og við erum í að fara í jafnveigamiklar og umfangsmiklar skattahækkanir og samdrátt í ríkisútgjöldum til að vinna sig út úr kreppu og bæti svo við, eins og ég nefndi áðan, þeim búsifjum sem íslensk heimili hafa orðið fyrir vegna hækkunar á lánum, bæði erlendum og innlendum. Ég sé ekki, frú forseti, hvernig þetta á að ganga upp. Ég sé ekki hvernig það á að geta gerst að við komum hjólum atvinnulífsins aftur af stað við þessar aðstæður. Það er þess vegna sem höfum við lagt fram okkar tillögur og það er þess vegna sem við erum á móti þeim tillögum sem ríkisstjórnin leggur fram. Það skortir á bæði að þær séu vel úthugsaðar og svo augljóslega tel ég að þær séu ekki í samræmi við það efnahagsvandamál sem við er að etja, þetta sé ekki skynsamleg efnahagsleg aðgerð.