138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki á móti umhverfissköttum og undrast í því ljósi að hann sé ekki tilbúinn til þess að taka þátt í því með okkur í meiri hlutanum að leggja sérstaka umhverfisskatta á fljótandi eldsneyti, því sannarlega er fljótandi eldsneyti mengunarvaldur.

Aðeins að orkugjöldunum. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að þeir skattar, bæði umhverfis- og auðlindaskattarnir, eru náttúrlega að talsverðu leyti að leggjast á greinar í atvinnulífinu sem hafa útflutningstekjur og búa að tekjustraumum sem sannarlega hafa verið að styrkjast eftir fall krónunnar, en það eru nú kannski einir af fáum tekjustraumum hér í landinu sem eru að styrkjast.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort hann og flokkur hans sé andvígur því að atvinnulífið taki þátt í því með þessum hætti að axla þær miklu byrðar sem við þurfum að bera á næstu árum og hvort hann sé beinlínis andvígur því að þeir aðilar eins og allir aðrir í samfélaginu komi að lausn málsins með því að taka til sín nokkuð.

Ég hlýt líka að spyrja hv. þingmann hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti því að almenningur njóti arðs af auðlindum landsins, orkuauðlindum landsins, með því að ríkissjóður innheimti fyrir þær nokkurt gjald, því sannarlega er það raforkan sem við erum að selja á ákaflega lágu verði, stærstan hluta hennar til stóriðju. Og hvort flokkurinn sé beinlínis á móti því að almenningur í gegnum ríkissjóð hafi lítils háttar arð af þeim miklu og dýrmætu auðlindum sem eru í landinu og hvort þetta eigi bara að fara arðlaust til stóriðjunnar og þaðan í útflutning.