138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér sorglegt og vont mál, frumvarp til laga um umhverfis- og auðlindaskatta. Eins og bent hefur verið á í umræðunni og ég benti á líka í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra áðan, þá finnst mér lítið vera til í því að þetta sé eitthvað um umhverfi og auðlindir. Þetta er fært í þann búning en þetta er ekkert annað, og hæstv. fjármálaráðherra gekkst við því áðan, en að ríkisstjórnin er að seilast í vasa skattgreiðenda, finna upp nýjar leiðir, nýja skatta, nýja skattstofna til að fá meiri pening í ríkiskassann, pening sem svo sannarlega vantar í ríkiskassann. Við sjálfstæðismenn höfum ekkert dregið úr því en við höfum bent á aðrar leiðir til að gera það. En, nei, þessi ríkisstjórn vill fara í nýja vasa, koma með nýjar álögur og ætlar sér að skattleggja síðustu krónuna út úr síðasta skattgreiðandanum í landinu. Það er það sem mér finnst sorglegt.

Við erum í þeirri stöðu að erfiðleikar hafa verið í efnahagslífinu. Það sem okkur vantar, og ég held að við séum öll sammála um, er að auka hvatana í atvinnusköpun, okkur vantar að koma lífi í efnahagskerfið. Okkur vantar að skapa störf og okkur vantar að blása lífi í skattstofnana. Þetta snýst um hugmyndafræði. Við höfum farið í gegnum það. Þetta sem hér er er ekki einhver vinstri græn hugmyndafræði sem hefur eitthvað með umhverfi að gera, þetta er bara skattapólitík. Það er hugmyndin um að hér skuli skattleggja allt og alla.

Hv. þm. Helgi Hjörvar kom upp í andsvar við hv. þm. Bjarna Benediktsson og sagði að við sjálfstæðismenn segðum hitt og segðum þetta, við sjálfstæðismenn segðum að þetta væri ekki umhverfismál. Hv. þm. Bjarni Benediktsson svaraði því ágætlega, nefndi m.a. að þetta væri ekki bara við sjálfstæðismenn sem værum að segja þetta, hann vísaði einnig til þeirra fjölmörgu umsagna sem borist hafa. Einmitt hvað þetta varðar vil ég líkt og hv. þm. Bjarni Benediktsson hafna því alfarið að eingöngu við sjálfstæðismenn séum að segja þetta vegna þess að við það að lesa þær fjölmörgu umsagnir sem borist hafa er það algjörlega sammerkt með þeim að menn eru búnir að sjá í gegnum blekkingarnar hjá ríkisstjórninni og sjá að þarna er ekki verið að gera neitt til að bæta umhverfismálin. Ef svo væri, ef það væri tilgangurinn eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti svo réttilega á, væri borðleggjandi að lækka og breyta ætti skattkerfinu þannig að það snerist um þetta en ekki að bæta þessu ofan á þá skattstofna sem við höfum núna.

Ég ætla aðeins að grípa niður í umsagnirnar vegna þess að mér finnst þær lýsa þessu mjög skýrt og hér er ekki hægt að væna fólk um að vera í einhverjum pólitískum hártogunum heldur er um umsagnaraðila að ræða.

Hér er umsögn frá Samtökum verslunar og þjónustu. Þau segja, með leyfi forseta:

„Samtökin setja sig ekki upp á móti því að gerðar verði ráðstafanir til að draga úr útblæstri kolefnis frá samgöngum á Íslandi. Samtökin eru reiðubúin að styðja við hugmyndir stjórnvalda um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda til framtíðar og vera stjórnvöldum til aðstoðar við útfærslu slíkra hugmynda. Það eru margar ráðstafanir sem hægt er að grípa til í þeirri viðleitni.

Samtökin hafna aftur á móti alfarið þeirri aðferðafræði sem íslensk stjórnvöld boða með þessu frumvarpi sem er hrein skattlagning á samgöngur og hefur ekkert með samdrátt kolefnisútblásturs að gera.“

Síðar í sömu umsögn segja þau enn fremur, með leyfi forseta:

„Útfærsla íslenskra stjórnvalda núna á upptöku kolefnisskatts er dæmi um illa ígrundaða ákvarðanatöku sem byggir ekki á neinum rökum.“

„Sem byggir ekki á neinum rökum“. Það finnst mér að hæstv. ríkisstjórn og þeir stjórnarliðar sem hana styðja, alla vega stundum, ættu að hugsa og taka tillit til. Þetta er illa ígrunduð ákvarðanataka sem byggir ekki á neinum rökum, að mati umsagnaraðila.

Samorka tekur í sama streng. Í umsögn frá þeim segir, með leyfi forseta:

„Samorka mótmælir þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja nýja skatta á raforku og heitt vatn, skatta sem draga munu úr lífsgæðum landsmanna og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, auk þess að draga úr gegnsæi verðlagningar á raforku og heitu vatni. Lágt verð á raforku og á heitu vatni til kyndingar hefur lengi verið einn af helstu kostum búsetu og fyrirtækjareksturs á Íslandi, fyrir nú utan að hér er orkan grænni en víðast hvar ef ekki alls staðar annars staðar. Flest orku- og veitufyrirtæki hafa enda verið rekin með afar lága arðsemi af þeirri grunnþjónustu sem þau sjá landsmönnum fyrir (arðsemin hefur hins vegar almennt verið hærri af raforkusölu til stóriðju). Nú hyggst ríkisstjórnin raska þessari mynd með fyrstu beinu sköttunum hérlendis á raforku og heitt vatn, sem Samorka mótmælir …“

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það er ekki eingöngu Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnarandstaðan sem gagnrýnir þetta. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að þetta sé leiðin sem ríkisstjórnin velur til að fá meiri pening í kassann en þá á segja hlutina eins og þeir eru, ekki að fara að kalla og sveipa þetta einhverjum dýrðarljóma og reyna að blekkja fólk. Það er óheiðarlegt og menn eiga að segja eins og er.

Hæstv. fjármálaráðherra kom í pontu og sagðist geisla af eldmóði en ég verð að segja að ég hef oft séð hann tala af meiri sannfæringu en hann gerði hérna áðan. Það var eitt sem vakti athygli mína í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, það var að hann sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af ferðaþjónustunni, að þetta væri ekki til þess fallið að gera henni lífið leitt heldur þvert á móti teldi hann að það stefndi í stórt ferðamannaár — sem ég vona svo sannarlega að verði — og þetta ætti ekki að koma henni neitt illa.

Ég leyfi mér að vera ósammála hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef miklar áhyggjur af ferðaþjónustunni í þessu samhengi vegna þess að ég held að þetta hafi mikil áhrif. Það sem vinstri menn, sem eru svo gjarnir á að leita í vasa almennings í hvert sinn sem eitthvað þarf að gera, gleyma er að þessir skattstofnar sitja ekki bara og bíða eftir að verða skattaðir. Þetta er kvikur skattstofn, ég tala nú ekki um þegar við erum að ræða um ferðamenn sem í eðli sínu ferðast á milli landa þá er þetta að sjálfsögðu á endanum allt reikningsdæmi.

Ég vil vitna í tölvupóst sem ég fékk frá aðila í bílaleigurekstri sem skaut á þetta aftan á umslagi, og vegna þess að þetta er svona aftan-á-umslags-útreikningur ætla ég sjálf að bera ábyrgð á því og ekki að bera viðkomandi fyrir því, en þar segir að það séu u.þ.b. 6.300 virkir bílaleigubílar á Íslandi, eða voru í sumar. Má gera ráð fyrir því svona gróflega að sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst, hafi tekjur af þeim verið nálægt 5,5 milljarðar, þar af er rúmur 1 milljarður sem ríkið tekur til sín í virðisaukaskatti. Hugsum aðeins hvað þessir bílar gera. Þeir keyra flestir hringveginn, meðalaksturinn er í kringum 230 km á dag og ef miðað er við 90% nýtingu og meðaleyðslu upp á 9 lítra á hundraðið keyptu viðskiptavinir þessarar bílaleigu eldsneyti fyrir um 21 millj. kr. á dag í allt sumar. 21 millj. kr. í eldsneyti á dag í allt sumar gerir upp undir 2 milljarða í eldsneyti. Við vitum að eldsneytið er drjúgur tekjustofn fyrir ríkissjóð og af þessu færi um það bil 60% beint í ríkiskassann. Og þetta er bara eldsneytið.

Svo tala ég nú ekki um að viðskiptavinir þessarar einu bílaleigu flugu hingað til lands, þeir þurftu gistingu og mat og það kostar eitthvað. Hjá öllum bílaleigufyrirtækjunum í landinu störfuðu í kringum 350–400 manns sem borga skatta í ríkissjóð, þannig að það eru gríðarleg áhrif af þessu ef ég tek aðeins þessa einu atvinnugrein. Að halda það að þegar skattur á eldsneyti, eða skattur á samgöngur eins og Samtök verslunar og þjónustu vildu kalla það, hækkar svona ótrúlega mikið þá hafi það í kjölfarið ekki nein áhrif á hegðun ferðamanna og á komu ferðamanna hingað til lands, það er hreinn barnaskapur.

Það hefur verið talað um að þetta sé skattur á landsbyggðina og færð fyrir því afar góð rök. Ég tek undir þau rök og hef áhyggjur t.d. ef maður hugsar um ferjurnar Herjólf og Baldur. Þar er ríkið að draga mikið úr kostnaði um þessar mundir og er þar af leiðandi að skapa mikla óvissu í samgöngum til að mynda til Vestmannaeyja og á Snæfellsnesinu.

Hvaða áhrif hefur þessi skattahækkun á rekstur slíkra samgöngutækja? Að sjálfsögðu hafa þau gríðarleg áhrif. Það er verið að færa yfir úr einum vasa yfir í annan og engin hugsun, ekki búið að hugsa málið til enda heldur er þessu skellt fram, alveg nákvæmlega eins og við sáum í fjárlagafrumvarpinu. Það átti nú hvorki meira né minna en gefa 16 milljarða í einhverjum fantasíumatseðli eins og hæstv. iðnaðarráðherra kallaði það og enginn vildi kannast við. Sem betur fer er búið að fara aðeins niður með þetta. Ég held líka að það sé partur af prógramminu hjá ríkisstjórnarflokkunum. Spunameistararnir hafa sagt: Nú skulum við henda út einhverri ógeðslega hárri tölu og síðan skulum við draga í land um svona tvo þriðju og þá verða allir sáttir.

Því miður finnst mér eins og fólk sé að kaupa þetta og því miður finnst mér og hef áhyggjur af því að íslenskur almenningur átti sig ekki á því hvers lags áhrif allar þessar skattahækkanir hafa, ekki bara það frumvarp sem við ræðum nú heldur allar þær ömurlegu skattahækkanir sem ríkisstjórnin er að kasta hér fram. Ég óttast að fólk geri sér enga grein fyrir því hvaða áhrif það hefur á hvert okkar.

Það er ekki rétt sem fram hefur komið hjá talsmönnum ríkisstjórnarinnar að þetta hlífi eitthvað sérstaklega þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Það hefur verið sýnt fram á að það er hreint og beint ósatt sem haldið hefur verið fram í umræðunni að fólk með tekjur undir ákveðnum mörkum, 270.000, að verið sé að hlífa því eitthvað sérstaklega og það verði betur statt en miðað við gildandi lög.

Sýnt hefur verið fram á það af hálfu okkar sjálfstæðismanna og það er hreint og klárt reikningsdæmi — ég hvet alla til þess að kynna sér það á vef Sjálfstæðisflokksins, xd.is, þar sem er reiknivél til staðar og fólk getur slegið inn forsendur sínar, þá sér fólk það svart á hvítu hvaða áhrif þær skattahækkanir hafa. En þetta var útúrdúr vegna þess að það eru aðrir skattar en þeir sem við ræðum hér. Því miður getur enginn reiknað út niður á hvern og einn einstakan skattgreiðanda hvernig þessar skattahækkanir koma til með að hafa áhrif, en sýnt er fram á það í frumvarpinu, í greinargerð og í umsögnum ýmissa umsagnaraðila, þ.e. áhrifin á einstaka atvinnugreinar og einstaka liði sem verða fyrir barðinu á þessu.

Ég hef miklar áhyggjur af öðru atriði. Hér er verið að setja á nýja skatta og hluti þeirra, sturtuskatturinn — og hver var hinn aftur sem verður tímabundinn? Ég fletti því upp hérna, það er stolið úr mér akkúrat í augnablikinu, en tveir af þessum sköttum sem verið er að leggja á eiga að vera tímabundnir. Ég leyfi mér að efast um það að eftir að búið er að koma á skatti — ég vísa í reynsluna, hver man ekki eftir sérstökum tekjuskatti sem var settur á til að klára að byggja Þjóðarbókhlöðuna? Hún var löngu risin þegar sá skattur var enn við lýði vegna þess að allir vita að erfiðara er að afnema skatta en að leggja þá á. Það er auðvelt að koma á nýjum sköttum, það er ekki vandamálið, en í því felst ákveðið hugleysi að mínu mati að takast ekki á við vandann og það sem við erum að glíma við.

Við sjálfstæðismenn höfum bent á aðra leið, sem er skattlagning séreignarsparnaðarins. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í dag að hann saknaði þess frá fólki sem væri að gagnrýna skattahugmyndir ríkisstjórnarinnar að það kæmi ekki með hugmyndir. Þegar ég kallaði fram í: „Það er ekki eins og við höfum ekki gert það“, var það afgreitt svona: Já, við getum svo sem rætt það einhvern tímann síðar.

Ég vil ræða þetta núna áður en það verður gert að lögum, áður en þeir skattar sem munu kæfa niður þróttinn í íslensku samfélagi og áður en þeir verða lagðir á. Það er punkturinn með tillögum okkar. Það er bráðnauðsynlegt að tillaga okkar verði tekin til umfjöllunar og til skoðunar og ég tala nú ekki um að hún komi til framkvæmda áður en þessar hugmyndir verða að veruleika vegna þess að það er í þessum hugmyndum sem hættan er fólgin.

Það er grátlegt að hugsa til þess að við séum að horfa framan í það að allar þessar hugmyndir verði að veruleika. Og allt er það undir einhverju yfirskyni umhverfis- og auðlindaskatta. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að mikil tímamót væru fólgin í frumvarpinu, mikil tímamót. Já. Hv. þm. Bjarni Benediktsson og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fóru ágætlega yfir það. Í því eru fólgin þau tímamót að verið er að breyta skattkerfinu í grundvallaratriðum á yfirnáttúrulegum hraða, án samráðs, án þess að taka tillit til athugasemda hvort sem það er innan eða utan kerfisins. Ég er að lesa hér athugasemdir frá aðilum innan skattkerfisins sem tala um kostnað, sem tala um að kerfin séu ekki tilbúin í þetta, að það þurfi að upphugsa heilu deildirnar væntanlega til þess að geta haldið utan um þetta rugl. Þetta er náttúrlega ekki boðlegt.

Ég er með mjög athyglisverða umsögn frá skattstjóranum í Suðurlandsumdæmi sem segir, þetta ekki langur kafli, en mér finnst þetta segja allt sem segja þarf. Þar kemur fram frá aðila sem vinnur við skattframkvæmd daginn út og daginn inn og hann segir, með leyfi forseta:

„Almennt séð er það mín skoðun að fjölgun skatta og nýbreytni í álagningu þeirra sé ekki æskileg. Í þess stað ætti að leitast við að breikka þá skattstofna og þann skattgrunn sem fyrir er í framkvæmdinni.

Þetta frumvarp er ekki í samræmi við þetta sjónarmið.“

Án þess að ég ætli að fara að túlka orð þessa ágæta embættismanns leyfi ég mér að halda því fram að hann sé á mjög kurteisan og yfirvegaðan hátt að segja: Vitið þið það að þetta gengur ekki upp svona, ég ætla bara að vara ykkur við þessu. Hann er að segja, og það sem aðrir hafa verið að benda á og rætt mikið í dag, að þetta er flækjustig sem mun fara með skattkerfið á sama tíma og verið er að breyta því. Við vorum að samþykkja hérna lög, ekki við, ríkisstjórnin var að samþykkja lög um að gera skattkerfið að einu umdæmi, gera miklar breytingar á kerfinu sjálfu sem skapar óstöðugleika í kerfinu á sama tíma og takast þarf á við allar þær og aðrar skattbreytingar sem verið er að demba yfir núna.

Ég spyr herra forseta: Hvernig má það vera að þrátt fyrir allar aðvaranir innan kerfis og utan hlusti hæstv. ríkisstjórn ekki á þetta en reyni að halda því fram að hér sé um eitthvert umhverfismál að ræða? Ég vísa því algjörlega á bug. Þetta er ekkert annað en auknar álögur á skattborgarana til þess að fá auknar tekjur í ríkissjóð sem ég held að muni ekki takast vegna þess að þetta eru kvikir skattstofnar. Og á sama tíma og við erum að byggja upp atvinnulíf og þurfum að efla það er verið að gera þetta. Verið er að hóta með fyrningaleið, það er verið að gera allt þetta sem ruggar þó þeim greinum sem eru að standa sig. (Forseti hringir.) Það, virðulegur forseti, er sorglegt.