138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki von á góðu frá ríkisstjórninni í þessari lagasmíð miðað við orð hv. þingmanns ríkisstjórnarflokksins hér áðan í andsvari við hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Þá kom ljós að þessir flokkar hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala um, hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera og hafa ekki hugmynd um hvernig lög er verið að setja hér á Alþingi því að þeir kynna sér ekki málið. Hér er komið fram frumvarp, frumvarp um auðlinda- og umhverfisgjald, og það snýst ekki einu sinni um það að þetta sé auðlindagjald. Maður er að verða svo bit á þessum vinnubrögðum að mælirinn er að verða fullur. Og að þetta skuli vera skýrt með þessum hætti og allir stjórnarliðar telja sig vera að tala um það að þetta frumvarp fjalli um auðlindagjald. Í raun og veru fjallar þetta fyrst og fremst um skattlagningu á einstaklinga landsins. Eins og það sé ekki búið að skattleggja það fólk nóg og eins og það sé ekki búið að tapa nógu miklu á því húsnæði sem það á eftir hrunið en það er ekkert gert til að hjálpa því. Nei, nú á að fara að koma hér inn í þingið frumvarpi með rangnefni til þess að jafnvel þjóðin átti sig ekki á því að það er verið að skattleggja hana enn meir. Nú er það rafmagnið og heita vatnið og kalda vatnið og hvað þetta allt er.

Ég er komin upp í fyrirspurn til hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Þar sem nafnið á þessu frumvarpi er frumvarp til laga um umhverfis- og auðlindaskatta hvað finnst þá þingmanninum um að hæstv. umhverfisráðherra sé staddur á Kaupmannahafnarráðstefnunni um loftslagsmál og hafi undirritað í gær eða fyrradag eiðstaf og beiðni þess efnis að Íslendingar gangi inn í loftslagsheimildir ESB og loftslagskerfi? Hvað finnst þingmanninum um það, sérstaklega í ljósi þess að nú hefur komið upp mikið svindl með viðskipti (Forseti hringir.) á ESB-svæðinu um þessar heimildir?