138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er talsmaður þess að kalla hlutina réttum nöfnum. Ef fólk ætlar að fara að hækka hér skatta í löngum bunum á bara að gera það og segja: Við erum að gera þetta vegna þess að við trúum því að það skili árangri, þetta er okkar hugmyndafræði, okkur vantar pening í kassann. Við teljum að besta leiðin úr vandanum sé að skattleggja meira, leggja meiri álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu. Þetta er nefnilega ekki neitt annað en hrein viðbót. Það er ekki snefill af sannfæringu í þessari hugmyndafræði, ég fann enga hugmyndafræði í frumvarpinu. Ég fann ekki einu sinni til málamynda neina lofrullu um það að þetta væri nú svo gott fyrir heiminn allan. Ónei, í nefndarálitinu er vikið að því að hér hafi orðið efnahagshrun. Ég held að það komi umhverfinu ekkert við.

Það á að kalla hlutina réttu nafni. Skattur á heitu vatni er sturtuskattur. Skattur á gamlar konur heitir ekknaskattur, ekki auðlegðargjald. Annað nafn yfir auðlegðargjald er nafn á gömlum skatti sem var afnuminn fyrir ekki svo löngu í tíð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, sem hét eignarskattur. Auðlegðargjald er ekki neitt annað en það. Þetta eru spunameistarar Samfylkingarinnar, leyfi ég mér að halda, og Vinstri grænna sem eru svo frjóir í hugsun.

En varðandi hæstv. umhverfisráðherra, ESB-loftslagsheimildakerfið og Kaupmannahöfn, sem hv. þingmaður vék að, er ég eins og þingmaðurinn hugsi yfir þessu. Ég man ekki eftir því að hæstv. umhverfisráðherra hafi komið hér fyrir Alþingi með þótt ekki væri nema tilkynningu eða skýrslu eða yfirlýsingu — ég þekki það ekki, ég beini fyrirspurninni kannski til hv. þingmanns, (Forseti hringir.) ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra beri lagaleg skylda til að leggja fram eitthvert frumvarp en þarna hefur hún greinilega (Forseti hringir.) tekið ákvörðun og ekki talið sig þurfa að bera það undir Alþingi. Mér þykir það sérstakt.