138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú skulum við bara tala um auðlindirnar okkar úr því þetta frumvarp heitir þessu nafni. Við erum búin að fullræða innihaldið, að þetta snúi ekki að auðlindinni.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur reynt að svara hér fyrirspurnum, m.a. frá mér, þrisvar sinnum nú á haustdögum og í vetur, þar sem ég hef þráspurt viðkomandi ráðherra um það hvað fara ætti fram og hvers ætti að krefjast í Kaupmannahöfn. Nú er þessi ráðherra þarna úti og hefur afsalað sér 75% af loftslagsheimildum okkar Íslendinga — 75%. Það er búið að henda íslenska ákvæðinu. Það á að renna okkur inn í loftslagskerfi Evrópusambandsins og þetta er ákvörðun ríkisstjórnarinnar, þeirrar sem nú situr. Ég hef sagt það áður: Þessari ríkisstjórn verður allt að ógæfu. Það er ekki staðinn vörður um réttindi okkar Íslendinga og það er hreint með ólíkindum að ráðherra geti farið fram með þessum hætti á þessari ráðstefnu og bundið íslensku þjóðina enn einu sinni. Þeir eru farnir að verða hættulegir þessir pennar sem ríkisstjórnin notar og er ég sérstaklega að vísa í Icesave-samningana því að svo er komið heim með þessi skjöl eins og um orðinn hlut sé að ræða og troðið upp í andlitið á þingmönnum.

Ég vil minna á að það var reiknað út hvers virði loftslagsheimildirnar voru árið 2007, þá voru þær 15 milljarðar. Síðan var bankahrun. Við getum hæglega tvöfaldað þessa upphæð miðað við stöðu krónunnar. Við skulum ekki fara með þetta hærra en upp í 25 milljarða. Þessu er hent út um gluggann. Hér er mikil kreppa. Það er verið að henda þessu tækifæri frá okkur, þessari auðlind sem við gátum þó notað til þess að rukka þá aðila, álfyrirtækin, sem þurfa á losunarheimildum að halda í rekstri sínum og koma t.d. (Forseti hringir.) á þá auðlindagjaldi með því að rukka þá fyrir notkun á losunarheimildunum, sem við sannarlega áttum þangað til í gær, (Forseti hringir.) því það er búið að afhenda þetta allt erlendum aðilum, Evrópusambandinu.