138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér hafa stórtíðindi gerst. Enn einn hæstv. ráðherra og jafnframt hv. þingmaður kemur hingað upp og viðurkennir að hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Ég vil vekja athygli á þessu, enn og aftur hefur það gerst að aðili kemur hingað upp og afneitar því ekki að Samfylkingin hafi eitthvað haft að gera með hvernig landinu var stjórnað undanfarin ár. Það er vel og ég vil hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa skarpskyggni og þetta góða minni sem hann býr að.

Það er rétt, mikið fé hefur verið sett í uppbyggingu í ferðaþjónustunni á undanförnum árum, sem betur fer. Þarna er enn ein grunnstoðin sem við getum byggt á til framtíðar við að byggja upp hér í landinu. Á þessu bera þeir ábyrgð sem voru við stjórnvölinn á þeim tíma, er það ekki? Væntanlega hefur þetta stóra og góða mál notið stuðnings allra flokka. Þótt ég sé ný á þingi geri ég frekar ráð fyrir því að flestallir flokkar sem hér hafa starfað telji sig bera hlýhug til ferðaþjónustunnar og styðji þessi verkefni. Það er gott. Ef illa hefði hins vegar farið geri ég ráð fyrir því að vinstri grænir stæðu hér í þessari pontu og kenndu Sjálfstæðisflokknum um allt það sem illa hefði farið, en sem betur fer fór ekki svo.

Vissulega er aðsókn erlendra ferðamanna til landsins mikil en það kemur því miður ekki til af góðu. Hér er verðlagið þannig að menn treysta sér til að koma hingað en það kemur ekki til af góðu, það varð efnahagshrun. Samt er ánægjulegt að finna fyrir þessum mikla áhuga. Það er gott til þess að vita að við sjáum fram á að ná inn meiri gjaldeyristekjum af þessari atvinnugrein á næstu árum og það er vegna þess að þannig hefur verið búið í haginn fyrir þessa grein, eins og hæstv. fyrrverandi ferðamálaráðherra (Forseti hringir.) kom inn á.